Skólastjóri Öldutúnsskóla í Hafnarfirði, Valdimar Víðisson, hefur tilkynnt um framboð sitt til sveitarstjórnarkosninganna sem fram fara í vor.
Valdimar stefnir á efsta sætið og segir þetta um málið:
„Eftir nokkuð góða umhugsun hef ég ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknar í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég hef brennandi áhuga á bæjarmálum og samfélagsmálum almennt. Síðustu 4 ár hef ég starfað sem formaður fjölskylduráðs. Ég hef áhuga á að láta enn meira að mér kveða á þessum vettvangi og gef því kost á mér í þetta verkefni.
Ég tel mig eiga fullt erindi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar,“ segir Valdimar og heldur áfram:
„Ég hef tæplega 20 ára reynslu sem skólastjóri, í fámennum og fjölmennum skóla. Sú reynsla hefur nýst mér afar vel þessi tæpu 4 ár sem ég hef látið að mér kveða á vettvangi stjórnmálanna. Fyrir utan þessi störf hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, bæði á hinu pólitíska sviði og eins í skólamálum. Ég flutti í Hafnarfjörð árið 2008.“
Valdimar er giftur Sigurborgu Geirdal og á hann einn son, tvær stjúpdætur og tvö barnabörn.
„Ég fann strax og ég flutti hingað að hér ætti ég heima. Hafnarfjörður er dásamlegur staður þar sem gott er að búa. Ég vill leggja mitt að mörkum til að Hafnarfjörður verði áfram eftirsóknarverður staður til að búa á, hér sé áfram góð þjónusta, hér séu ekki íþyngjandi álögur á fjölskyldufólk, hér sé eldri borgurum búið áhyggjulaust ævikvöld, hér sé áfram unnið að því að eyða biðlistum eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, hér sé öflugt íþróttastarf, hér séu leik- og grunnskólar í fremstu röð og svona mætti lengi telja. Ég hlakka til að kynna mig og mínar áherslur á næstu vikum.“