Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.1 C
Reykjavik

Valur Gunnarsson – Þegar friðurinn er orðinn óeðlilegt ástand

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér rann eiginlega blóðið til skyldunnar. Ég hafði verið áður í Úkraínu og skrifað um það bókina Bjarmalönd sem hálf þjóðin virtist vera farin að lesa eftir að stríðið braust út. Mér fannst ég þurfa að fara aftur og fjalla um það sem er að gerast núna. Ég gerði útvarpspistla fyrir Rás 2 og skrifaði greinar á vef þeirra sem og í Stundina. Og svo verður þetta líklega bók á endanum. Blaðamenn eru mjög vel séðir í Úkraínu þessa dagana, enda vita menn þar að þeir eiga mikið undir að fólk gleymi ekki því sem er að gerast,“ segir Valur Gunnarsson, blaðamaður og rithöfundur, sem er tiltölulega nýkominn frá Úkraínu.

Í Odesa heyrði ég í fyrsta sinn í sprengingum.

„Stríðið stigmagnaðist eftir því sem ég hélt lengra. Fyrsta stopp var í Lviv, vestast í landinu, þar sem er fremur rólegt en útgöngubann. Loftvarnarsírenurnar vöndust, enda tók fólk þeim almennt ekki mjög alvarlega. Í Kyiv var einnig fremur rólegt en þar sá ég fyrst sundurskotin hús, ekki síst í úthverfunum Bútsja og Irpin. Það er hrikalegt að hugsa til þess sem þar átti sér stað en fólk þar virðist staðráðið í að halda lífinu áfram. Suður í Mykolaiv hefur borgin verið vatnslaus mánuðum saman og það var magnað að sjá fólk frá nágrannabæjum koma vikulega með vatnsbirgðir sem það safnar saman kauplaust en með mikilli fyrirhöfn. Í Odesa heyrði ég í fyrsta sinn í sprengingum þegar Pútín réðist á höfnina rétt áður en samkomulagið um hveitiflutningana gekk í garð.“

Valur Gunnarsson

Valur fór undir lok sumars til austurhéraðanna rétt eftir að gagnárásin hófst. Með honum í för var eisneskur maður sem hann segir að hafi verið að flytja vistir á vígstöðvarnar. „Í Kharkiv var mikið stríðsástand, miðbærinn í rúst og engin ljós á götum og var mestallt lokað. Um ellefuleytið byrjuðu Rússarnir að skjóta og næturhiminninn varð blár. Á ferð um Donbas tókum við upp í bílinn tvo skriðdrekaliða sem höfðu fengið fimm daga leyfi í fyrsta sinn síðan stríðið hófst fyrir að hafa grandað tveimur rússneskum skriðdrekum og lá á að komast heim og hitta fjölskyldur sínar þótt eldflaugarnar flugu yfir. Í Dnipro var ég svo fyrir raunverulegri árás þegar bíllinn titraði undan loftskeytum sem lentu í grenndinni. Við reyndum að finna upptökin til að veita aðstoð en tókst ekki. Fimm létust þá nóttina og þetta var það sem tók mest á. Þetta fólk átti alveg jafnmikinn rétt á því að lifa nóttina af og ég en fékk ekki.“

Valur Gunnarsson

Starði örvinglað út í loftið

- Auglýsing -

Valur fór til fleiri landa í Austur-Evrópu á þessum tíma.

„Ég fór fyrst til Póllands enda er ekkert farþegaflug til Úkraínu. Í Wroclaw hitti ég konu sem hafði áður unnið á Íslandi og hafði tekið þátt í að taka á móti flóttamönnum eftir að stríðið braust út. Hún sagði að börnin vissu varla hvað væri að gerast en að fullorðnar konur myndu finna sér einhverja leið til að takast á við þetta allt. Verst var þetta fyrir gamla fólkið sem starði örvinglað út í loftið, búið að missa allt og þyrfti nú að hefja nýtt líf. Það eru víða flóttamannamiðstöðvar bæði í Póllandi og Slóvakíu en í sumar lá straumurinn í hina áttina, sum sé heim til Úkraínu. Ef til vill er annað uppi á teningnum núna þegar verið er að sprengja innviði og það vantar hita og rafmagn og vetur færist yfir.“

Loftvarnarsírenur, sundurskotin hús og eldflaugaárásir verða brátt daglegt brauð.

Hvaða áhrif hafði þetta allt á Val?

- Auglýsing -

„Kannski er það undarlegast hvað maður venst fljótt við. Loftvarnarsírenur, sundurskotin hús og eldflaugaárásir verða brátt daglegt brauð eins og það auðvitað er orðið fyrir Úkraínumenn sjálfa. Það var fyrst þegar ég var kominn yfir til Slóvakíu og mér brá að sjá flugvél fljúga yfir og enn meira þegar ég fékk blátt ljós í augun af reiðhjólalukt sem átti leið hjá og minnti mig á eldflaugaárás að ég fann að friðurinn var orðinn óeðlilegt ástand. En þetta stóð aðeins yfir í nokkra daga og svo vandist ég við á ný.“

Það eru litlar líkur á að Úkraínumenn gefist upp.

Hann lærði ýmislegt af þessu. „Kannski hvað aðlögunarhæfni okkar dýrategundar er mikil og fólk er staðráðið í að halda áfram og reyna, eftir atvikum, að lifa eðlilegu lífi. Það sem áður var óhugsandi verður á endanum eðlilegt og fólk lærir að takast á við það. Og það eru litlar líkur á að Úkraínumenn gefist upp; en það vissi ég jú fyrir.“

Valur segir að það sé erfitt að segja hvort hann horfi á heiminn öðrum augum en áður út af þessu?

„Sem sagnfræðingur hef ég löngum gert mér grein fyrir skuggahliðum mannkyns og að stríð brjótast reglulega út, jafnvel þótt fæstir vilji það. En það er auðvitað dálítið annað að sjá það með eigin augum frekar en í sögubókum. Best væri ef stríð væru aðeins til í sögubókum, en þess verður líklega langt að bíða.“

Valur Gunnarsson

Hvað ef?

Nýjasta bók Vals, Hvað ef?, er nýkomin út.

„Ég hef verið að fást við „Hvað ef“ spurningar sögunnar í langan tíma, meðal annars í ókláruðu doktorsnámi í Bretlandi. Ekki er enn tímabært að fjalla um þetta stríð í heild, enda veit enginn hvernig fer. En bókin er samt einhvers konar tilraun til að takast á við samtímann og ein leið til þess er að skoða það sem gerst hefur hingað til. Hefði verið hægt að koma í veg fyrir fyrri heimsstyrjöld og þar með þá seinni? Hvað ef rússneska byltingin hefði þróast á annan hátt eða Sovétríkin hefðu enn staðið? Allir þessir atburðir hafa leitt okkur á þann stað sem við erum stödd á nú en hefðu hæglega getað farið öðruvísi. Og þetta er hollt að hafa í huga varðandi framtíðina sem er jú alltaf í mótun.“

Handahófskenndar ákvarðanir

Það var lífsreynsla að verða vitni að hörmungunum í Úkraínu. Hvaða önnur lífsreynsla hefur haft áhrif á Val?

„Stundum veit maður að mikil lífsreynsla stendur fyrir dyrum; eins og þegar maður heldur í stríð. En oft eru það hálfhandahófskenndar ákvarðanir sem enda með að móta lífið mest. Ég ákvað að fara í skiptinám veturinn 1999 og varð Finnland fyrir valinu því allir umsóknarfrestir voru löngu liðnir og aðeins Finnar eða Danir vildu taka við mér. Dvölin í Finnlandi leiddi til þess að ég kynntist Rússlandsfræðingum og Rússlandsfræðum sem og fyrstu ástinni sem einnig var rússnesk. Þetta leiddi svo aftur til þess að ég ferðaðist til Rússlands og bjó síðar í Eistlandi og loks Úkraínu sem aftur leiddi til þess að ég skrifaði um það bók. Og ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði kosið að fara til Árósa frekar en Helsinki í janúar 1999.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -