Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-6.8 C
Reykjavik

Vanda og steintröllin í Katar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ferðalag toppanna hjá Knattspyrnusambands Íslands til Katar er lýsandi fyrir þann undirlægjuhátt sem er ríkjandi í garð þeirra fanta sem ráða ríkjum í þessu ríki fordómanna. Yfirvöld í Katar hafa grímulaust látið i ljós andúð sína á samkynhneigðum og FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, tekur undir með þeim. Hugmyndir knattspyrnumanna um að bera armband til stuðnings hinseginfólki voru slegnar út af borðinu og þeim hótað refsingu með gulu spjaldi ef af þessu yrði. Forsvarsmenn FIFA eru enn einu sinni að gera upp á bak. Saga sambandsins er stráð spillingarmálum sem vakið hafa ógeð víða um heimsbyggðina.

Ástæðu þess að örríkið Katar fékk keppnina má rekja til spillingar þar sem mútur koma við sögu. Nýir forsvarsmenn FÍFA eru litlu skárri. Þeir heiðra skálkinn með því að samþykkja í raun ofsóknirnar gegn samkynhneigðum. Samkvæmt tilskipun Katara þá mega samkynhneigðir vera í landinu en þeir mega ekki faðmast eða láta vel að hverju öðru. Þeir verða að vera ósýnilegir. Steintröllin í Katar vaða uppi með ævaforna fordóma sem lýðræðisríki hafa fyrir löngu kveðið niður að mestu. Þau draga með sér þjóðir sem ættu að geta staðið í lappirnar gegn miðaldasjónamiðunum en gera það ekki. Þeirra á meðal eru Íslendingar.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, lagði leið sína til Katar og gaf þannig öfgafólkinu klapp á bakið. Sama er að segja um þá starfsmenn Ríkisútvarpsins sem heiðra skálkana í Katar með því að mæta í fullkomnu tilgangsleysi. Allt þetta fólk ætti að skammast sín fyrir að ýta undir ómennsku stjórnvalda smáríkinu með nærveru sinni.

Íslenska Knattspyrnusambandið er raunar frægt af endemum. Þar var gerð hallarbylting þegar spillt forysta var látin víkja og Vanda kom sem riddari á hvítum hesti til að siðvæða og hreinsa út ófögnuðinn. Nú er staðan sú að hún hefur brugðist vonum fólksins. Landsliðskarlar eru verðlaunaðir  á hátíðarstundu en konurnar ekki. Vanda lætur svo hafa sig í þá óhæfu að fara til Katar þar sem fordómarnir ríkja og spóka sig.

Ríkisútvarpið er á sama báti. Í stað þess að sitja heima og mótmæla þannig, væflast þeir um og taka viðtöl hvert við annað. Ríkissjónvarpið fer til Katar í óþurftarferð með tilheyrandi kostnaði og tekur viðtal við Vöndu sem beygir af og kvartar undan vondum fjölmiðlum. Samansúrrað bandalag um að lyfta öfgaliðinu í Katar á stall. Þetta er ógeðslegt.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -