Lögregla var kölluð til í miðborg Reykjavíkur í gær en þar hafði maður dottið í jörðina og rotast. Stuttu síðar barst tilkynning vegna manns sem neitaði að yfirgefa hótel í miðbænum en lögregla mætti á vettvang og vísaði manninum út.
Í Breiðholti hafði maður verið til vandræða en ekki er vitað hvers konar vandræði áttu sér þar stað. Þegar lögregla mætti á vettvang var hann hins vegar á bak og burt.
Ölvaður maður lét illa á veitingastað í Kópavogi og endaði það með því að lögreglu var gert viðvart klukkan hálf níu í gærkvöld. Þegar komið var á veitingastaðinn lá maðurinn á gólfinu og lögregla greip inn í.
Töluvert var um umferðaróhöpp í gærkvöldi og í nótt en nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.