Um hálfníu í gærkvöld var óskað eftir aðstoð lögreglunnar á Landspítalanum við Hringbraut. Í dagbök lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þar hafi einstaklingur, í annarlegu ástandi verið til vandræða. Sá var vistaður í fangageymslu uns af honum rennur.
Lögreglan þurfti tvisvar að hafa afskipti af fólki sem var til vandræða á sjúkrahúsum borgarinnar í gærkvöld og í nótt. Seinni tilkynningin barst á þriðja tímanum í nótt þegar lögregla var kölluð að bráðamóttökunni í Fossvogi. Sá fékk einnig að gista fangageymslur þar til af honum rynni.
Nokkuð var um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu en engin slys urðu á fólki auk þess sem allnokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Einnig var tilkynnt um innbrot í hús og bíla.