Ástand skapaðist á bráðadeild Landspítalans þegar kona í óljósum erindum var til ófriðs. Lögreglan var kölluð til og var konan handtekin. Við yfirheyrslu var hún hin bljúgasta og lofaði bót og betrun gegn því að vera ekki læst inni í klefa. Lögreglan sleppti henni gegn því að hún yrði til friðs.
Önnur kona var í annarlegu ástandi vegna áfengsineyslu á veitingastað í austurborginni. Hún var til vandræða og verðir laganna kallaðir til. Ekkert tjón hafði orðið af hennar völdum og voru ekki gerðar aðrar kröfur á hendur henni en þær að hún færi af staðnum. Hún var hjálparvana og komst hvorki lönd né strönd. Lögreglan ók henni til síns heima þar sem hún sefur úr sér.
Ökumaður á leið um Reykjanesbraut var svo óheppinn að sofna undir stýri sem leiddi til þess að hann hafnaði á vegriði sem bjargaða honum frá öðrum afleiðingum en þeim að bifreiðin er óökufær en blessunarlega allir heilir.
Vopnaður maður lét dólgslega og hafði uppi hótanir í Hafnarfirði. Hann var handtekinn og læstur inni í fangaklefa þar sem hann hvílir nú og bíður þess að vera yfirheyrður.
Hætta skapaðist í fjölbýlishúsi í miðborginni eftir að eldur kviknaði í stjórnbúnaði fyrir heitan pott á svölum. Nokkur eldur varð og kom slökkvilið á staðinn og slökkti. Engan sakaði.
Ökumaður torfæruhjóls ók á unga stúlku sem var við leik á skólalóð í Kópavogi. Stúlkan var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið en talið að meiðsl hennar séu minniháttar.
Vopnaður ökumaður var stöðvaður í austurborginni. Hann reyndist vera undir áhrifum fíkniefna. Hann var vopnaður hnífum og með fíkniefni. Hann verður kærður fyrir akstur undir áhrifum, vopnalagabrot og vörslu fíkniefna.