Til er fólk sem velur þann starfa að bæta í matarkistu þjóðarinnar, þrátt fyrir litlar þakkir og léleg laun. Hvernig dettur ungu fólki að gerast bændur? Mannlíf fór á stúfana og hitti jákvæða og bjartsýna ungbændur sem hafa nýlega tekið þá ákvörðun að gera landbúnað að ævistarfi sínu. Viðtölin munu birtst í næstu fjórum tölublöðum og við byrjuðum á að hitta unga bændur í Suður-Þingeyjarsýslu.
Jóna Björg Hlöðversdóttir og yngri systir hennar eru fimmta kynslóð bænda í fjölskyldunni og tóku formlega við kúabúi foreldra sinna um áramótin, þótt þær hafi búið þar og starfað seinustu sjö árin. „Við stofnuðum félagsbú um áramótin og erum í rólegheitum að taka þetta skref þannig að pabbi og mamma fái eitthvað fyrir sinn snúð og við förum ekki á hausinn við að kaupa þau út,“ útskýrir Jóna Björg. Hún er fædd 1985 og titlar sig nú sem ungan bónda, að Björgum í Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu.
Þær systur, Jóna Björg og Þóra Magnea, eru fæddar þar og uppaldar, líkt og faðir þeirra, en sama fjölskyldan hefur búið að Björgum í yfir 100 ár. Þriðja systirin, og sú elsta, er búsett í Reykjavík. Jóna segist aldrei hafa fundið fyrir þrýstingi frá foreldrum sínum um að taka við búinu.
„Við getum ekki sagt að það hafi verið fyrir einhverja pressu frá foreldrum okkar sem við urðum bændur, eins og oft var í gamla daga að fólk fékk ekki tækifæri til að fara í burtu. Ég fékk alltaf mikinn stuðning og hvatningu til að fara og læra það sem mig langaði til að læra og var spurð að því hvað ég virkilega vildi læra og vinna við frekar en að það væri ætlast til að ég ynni á búinu,“ segir Jóna Björg.
Úr lögfræði í landbúnaðarháskóla
Hún dreif sig í Háskólann í Reykjavík að læra lögfræði að loknu stúdentsprófi. „Það var áhugavert þó að ég hafi ekki alveg fundið mig í því svo ég fékk mér bara vinnu í Reykjavík en alla föstudaga dreif ég mig svo norður í sveitina og var þar í öllum fríum. Svo endaði með því að ég hugsaði: Bíddu, hvað er ég að gera? Langar mig til að búa og vinna í Reykjavík? Hvers vegna ver ég öllum fríum í sveitinni? Er þetta kannski eitthvað sem mig langar að gera? Og þá fann ég að svarið var já. Þetta er alltaf það sem ég sækist í, að komast heim til kúnna og fjölskyldunnar og njóta náttúrunnar og hlaða batteríin.“ Þannig rann loks upp fyrir Jónu að hana langaði að vera bóndi svo hún fór í Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og lauk BS-gráðu í búvísindum.
„Sem betur fer er aðalinnkoma okkar af mjólkurframleiðslunni þótt að sauðfjárræktin hafi mikið að segja líka. En þegar við bárum saman tölurnar síðasta haust frá árinu áður, þá vorum við að fá hálfri milljón minna.“
Á Hvanneyri fannst Jónu hún enda komin heim. „Í menntaskóla og háskóla var maður oft svolítið að fela bakgrunninn, ekkert að auglýsa það beint að maður væri úr sveit. En á Hvanneyri var maður allt í einu kominn inn í hóp sem hafði áhuga á því að tala um landbúnað og búskap og ræða öll þessi mál og skyndilega skipti það öllu hvar maður ætti heima og úr hvaða sveit og hvað maður ætti margar kýr. Og þetta var eitthvað sem mig langaði alltaf að tala um,“ segir Jóna hlæjandi og bætir við að þær systur segi stundum í gríni að þær hafi gerst bændur því þeim líki betur við dýr en mannfólk. En að öllu gríni slepptu hafa þær sérstakt dálæti á kúm. „Okkur þykir þær alveg magnaðar skepnur, svo miklir og ólíkir karakterar og allir vinir mínir vita að það þýðir ekkert að tala illa um kýr í mín eyru.“
Töluvert högg
Björg eru nokkuð stór jörð og búið meðalstórt með 40 kúm og um 100 fjár. Hljóðið er ólíkt betra í kúabændum en sauðfjárbændum og Jóna Björg horfir fram á uppbyggingartíma í sínum búskap. „Það er mikill aðstöðumunur á þessum greinum og gríðarlega erfið staða í sauðfjárræktinni því rekstrargrundvöllur sauðfjárbúa er bara enginn. Sem betur fer er aðalinnkoma okkar af mjólkurframleiðslunni þótt að sauðfjárræktin hafi mikið að segja líka. En þegar við bárum saman tölurnar síðasta haust frá því árinu áður, þá vorum við að fá hálfri milljón minna. Og sáum samt af okkar tölum að við hefðum í raun átt að fá um hálfri milljón meira því að lömbin voru stærri. Þetta var töluvert högg fyrir okkur en hvernig heldurðu að þetta hafi verið fyrir þá bændur þar sem þetta er öll þeirra innkoma? Á meðan er mikil uppbygging í mjólkurframleiðslu, á tímabili var bara vöntun á mjólk og því mikill hvati til að auka framleiðsluna. Spurning hversu lengi það stendur, hvenær verður toppur í neyslunni eða ferðamannafjölda, hvenær við þurfum að draga okkar framleiðslu saman en sem stendur er mikill hugur í kúabændum því þeir hafa getað bætt sína aðstöðu og aukið sína framleiðslu talsvert.“
Krefjandi að búa með foreldrum sínum
Eins og fyrr segir hafa Jóna og systir hennar og mágur tekið að mestu við búinu en foreldrar systranna búa þar enn að sjálfsögðu og pabbi þeirra tekur enn þátt í bústörfunum. Mamma þeirra mjólkaði kýr í 30 ár en hefur nú alveg dregið sig út úr bústörfunum og vinnur úti í frá. „Við búum hérna öll í stóru parhúsi, hvert í sínu horni, en borðum helstu máltíðir saman og ræðum hvað við ætlum að gera í búskapnum. Morgunverðurinn er alveg heilög stund hér,“ segir Jóna en viðurkennir að eins og hjá öðrum geti þessi nána sambúð tekið á.
„Þetta er ekki alltaf dans á rósum og það koma alveg upp árekstrar og eru oft mismunandi meiningar milli kynslóða. Ég sakna þess stundum að búa út af fyrir mig. Það þarf að gerast á næstu árum því það er alveg krefjandi að búa með foreldrum sínum þegar þú ert komin á fertugsaldur. Fyrir þeim er ég enn litla stelpan þeirra,“ segir Jóna og hlær. „En annars erum við mjög samheldin fjölskylda en þegar við tölum um fjölskyldu nær það líka til systkina pabba sem koma við hvert tækifæri svo þetta er stór hópur og gríðarlega samheldinn. Allir eyða sumarfríunum hér, jólaboðin eru fjölmenn og ég þekki bara ekkert annað.“
„Þetta er ekki alltaf dans á rósum og það koma alveg upp árekstrar og eru oft mismunandi meiningar milli kynslóða. Ég sakna þess stundum að búa út af fyrir mig.“
Hún segir þó nauðsynlegt að komast reglulega í burtu og það hjálpi að starfa svo mörg við reksturinn. „Ef þú ert heima ertu alltaf að vinna, það eru engir reglulegir frídagar, en það er auðveldara fyrir okkur að komast að heiman fyrst við erum svona mörg. Ég myndi ekki leggja í þetta starf ein og komast þá aldrei frá. Ef ég er alltaf hér heima með fjölskyldunni fæ ég næstum innilokunarkennd. Ég verð að komast að heiman reglulega, til að hitta annað fólk. Ég tek mikinn þátt í félagsstörfum þannig að ég fer mikið á fundi og mikið af starfinu hjá Ungum bændum fer fram í Reykjavík. Og það er gott að fara að heiman öðru hvoru til að finna hvað það er gott að koma heim.“
Þarf að þola spurningar um makaleit
Sem ung kona þarf Jóna einnig að fara út á lífið öðru hverju eða að minnsta kosti hitta vini og vinkonur. „Flestir vina minna búa hér á Norðurlandi á Húsvík eða Akureyri og þar í kring svo ég mæli mér oft mót við þá. Svo kíki ég einstaka sinnum á djammið á Akureyri en ég finn að ég er farin að eldast, þetta er ekki jafnauðvelt og í „gamla daga“ þannig að það er aðeins farið að róast hvort eð er,“ segir hún og virðist einskis sakna frá stórborgarlífinu.
Og eins og svo margir einhleypingar þarf Jóna að þola reglulega spurningar um hvernig makaleitin gangi. „Mér finnst þetta frekar gömul og þreytt lumma að fólk skuli alltaf vera að velta þessu fyrir sér og spyrja hvort mig vanti ekki bónda? Mig vantar ekki einhvern til að hjálpa mér í búskapnum, ef ég eignast maka yrði það frekar vegna félagsskaparins svo nei, mig vantar andskotakornið ekki bónda!“