Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Var orðinn saddur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í fyrra voru 20 ár liðin síðan fyrsta lag Einars Bárðarsonar kom út en það er lagið „Farin„ sem Skítamórall gerði vinsælt. Einar hélt ásamt fleirum tónleika sama ár þar sem lög hans voru flutt og nú er að fara að koma út hljómplata með þekktustu lögum hans sem spanna þessi 20 ár og kallast hún Myndir. Útgáfu plötunnar verður fagnað 8. og 9. febrúar með sögustund og „singalong-tónleikum“ í Hvíta húsinu á Selfossi og í Bæjarbíói í Hafnarfirði.

„Ég blés til tónleika í Bæjarbíói í fyrra í tilefni af því að þá voru 20 ár síðan fyrsta lagið mitt kom út, Farin, og með fram því varð til hugmynd um að taka upp og endurútgefa kannski þekktustu lögin mín,“ segir Einar. „Þau hafa verið gefin út með ýmsum hljómsveitum og á misjöfnum tímabilum og langaði mig til að taka þetta upp á nýtt í einum heildarbúningi og það var gert. Það er heildarbragur á lögunum á plötunni. Ég hef verið mjög lánsamur í gegnum tíðina að þeir listamenn sem hafa flutt lögin mín hafa notið mikilla vinsælda og gert mjög mikið fyrir þessa tónlist. Mig langaði til að snúa hlutunum aðeins við á þessari plötu þannig að Magni í Á móti sól tekur til dæmis lag sem Nylon-flokkurinn flutti á sínum tíma, Klara í Nylon tekur Skítamóralslag og Gunni Óla í Skítamóral syngur lag sem Á móti sól flutti og svo framvegis. Svo eru undantekningar þar sem 12 ára dóttir mín syngur eitt lag á plötunni. Síðan syngur Karitas Harpa eitt lag en hún hefur ekki sungið lag eftir mig áður. Friðrik Ómar og Stefán Hilmarsson syngja til dæmis bakraddir í tveimur lögum. Þetta fólk er vinir mínir til margra ef ekki tugi ára.“

Útgáfu plötunnar verður fagnað 8. og 9. febrúar með sögustund og „singalong-tónleikum“ í Hvíta húsinu á Selfossi og í Bæjarbíói í Hafnarfirði. „Það er eiginlega skylda að halda tónleika í gamla heimabænum mínum, Selfossi, en tónlistarferill minn byrjaði þar. Ég hélt tónleikana í fyrra í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Ég á engan stórkostlegan aðdáendahóp sem myndi troðfylla Hörpu þannig að þetta verður hófstemmt og skemmtilegt en í Bæjarbíói eru um 200 sæti og rosalega góður hljómburður.“

Hrunið og krabbamein settu strik í reikninginn

Einar var áður umboðsmaður ýmissa vinsælla tónlistarmanna, meðal annars Garðars Thors Cortes og Nylon og bjó um tíma í London ásamt fjölskyldu sinni en hætti síðan öllum slíkum störfum. „Það var þegar ég var staddur á afhendingu bresku tónlistarverðlaunanna í Royal Albert Hall vorið 2008 þar sem Garðar Thor var tilnefndur til þeirra verðlauna með plötu sem við tókum upp saman og ég framleiddi sem ég ákvað að flytja heim og reyna að vinna í þessu þaðan – það var á verðlaunakvöldinu sem ég ákvað þetta hvort sem við myndum vinna verðlaunin eða ekki. Það var margt sem spilaði inn í, svo sem að mamma mín greindist með krabbamein á þessum tíma þannig að ég vildi vera heima en hún sigraðist sem betur fer á því. Svo eftir að við fluttum heim kom hrunið og maður fór í aðrar áttir; það má orða það þannig. Ég var líka aðeins orðinn saddur, ef svo má segja, eftir að hafa verið á fullu spani í London í nokkur ár sem og hérna heima. Það var ekkert sem mig langaði að gera í þessu lengur og allt það sem stóð til boða var einhvers konar endurtekning á því sem búið var að gera.“

Fleiri lög væntanleg

Einar segist hafa farið í nám, náð sér í MBA-gráðu og nýtt tímann til ýmissa annarra verka. „Ég fæddist ekki til að vera í sama farinu alla ævi. Mörgum líður vel í þannig umhverfi en það er eiginlega öfugt með mig.“

- Auglýsing -

Einar segir að sér þyki hins vegar mjög gaman að fylgjast með góðu gengi til dæmis Ölmu úr Nylon og Garðars Thors á erlendri grundu sem og fleirum sem hafa unnið með honum í gegnum tíðina. „Þetta er fólk sem er í fremstu röð í því sem það er að gera,“ segir hann og bætir við að sjálfur sé hann búinn að vera að finna undanfarið einhvern gamlan neista sem tengist því að semja tónlist og það ætli hann að gera. „Já, ég ætla að bóna gítarinn og sjá hvort ég geti ekki fengið fleiri lög út úr honum með komandi tíð,“ segir hann léttur í bragði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -