Óprúttnir aðilar reyna á græða á farmiðum flugfélagsins WOW air.
Á vef kortafyrirtækisins Valitor er nú varað við óprúttnum aðilum sem hafa verið að hringja í fólk, sem er að reyna að fá farmiða sína með WOW air endurgreidda. „Valitor hefur fengið spurnir af því að hringt hafi verið í fólk í nafni Valitor og beðið um kortaupplýsingar, að sögn til að flýta fyrir endurkröfuferli,“ segir í tilkynningu á vefnum.
Valitor varar fólk við því að gefa upplýsingarnar þar sem það sé ekki venja hjá fyrirtækinu að hringja í fólk til að falast eftir kortaupplýsingum þess. Þarna séu því að öllum líkindum svikahrappar á ferð.