Sara Pétursdóttir, eða Glowie eins og flestir þekkja hana, er heldur betur á blússandi siglingu um þessar mundir en hún var að senda frá sér lagið Cruel.
Lagið Cruel fylgir fast á eftir laginu Body sem kom út fyrir skömmu og fékk frábærar viðtökur. Cruel er annað lagið sem hún sendir frá sér undir merkjum Columbia Records en útgáfurisinn gerði nýlega samning við hana.
Glowie vinnur náið með Tayla Parx en hún hefur samið marga smelli fyrir ekki ómerkara fólk en Ariana Grande, Anderson Paak og Khalid svo nokkrir séu nefndir. Cruel fjallar um hvað krakkar geta verið grimmir en sjálf lenti Glowie í einelti í skóla fyrir að vera of grönn. Hún varð mjög óörugg með eigin líkama en í dag er hún sátt við sjálfa sig og vill miðla reynslu sinni áfram í gegnum tónlist sína.