Hin 25 ára Jamie Lee Komorski var ákærð fyrir akstur undir áhrifum áfengis og manndráp eftir að hún keyrði aftan á golfbíl nýgiftra hjóna með þeim afleiðingum að Samantha Hutchkinson, 34 ára lést. Í gær úrskurðaði dómari að Jamie fengi ekki að ganga laus gegn tryggingu, eins og hún hafði óskað.
Samantha og Aric Hutchkinson gengu í það heilaga þann 28 apríl síðastliðinn. Hjónin kvöddu veislugesti og héldu út í kvöldið á golfbíl sem á stóð „nýgift.“ Aðeins nokkrum klukkutímum eftir brúðkaupið lenti Jamie aftan á golfbílnum á 100 kílómetra hraða en hámarkshraðinn á svæðinu var 40. Samantha var úrskurðuð látin á slysstað en eiginmaður hennar fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús. Tveir aðrir fjölskyldumeðlimir voru í golfbílnum og voru þeir einnig fluttir á bráðadeild með áverka.
Jamie hélt því staðfastlega fram að hún hafi einungis drukkið tvo áfenga drykki en blóðrannsóknir sýndu að alkahólmagn í líkama hennar hafi verið þrisvar sinnum meira en lögleg mörk eru við akstur. Hún neitaði að nota áfengismæli á slysstað.
Eftir áreksturinn neitaði Jamie fyrir að hafa gert nokkuð rangt og sagðist vilja fara heim. Hún var þó handtekin samstundis og hefur verið í haldi síðan. Upptöku þar sem Jamie heyrist tala við föður sinn var lekið í bandaríska fjölmiðla en þar talar hún um að líða illa í fangelsinu. „Guð minn góður. Ég trúi ekki að þetta hafi komið fyrir mig. Af hverju ég? Ég á eftir að sitja inni í mörg ár. Ég trúi ekki að þetta sé líf mitt.“
Aric er nú í hjólastól en meðal annara áverka voru báðir fætur hans brotnir. Hann er rólega að ná aftur líkamlegri heilsu. Réttarhöld yfir Jamie eru á dagskrá í mars á næsta ári.