Sprengjum rignir nú yfir Kænugarð og gríðarleg biðröð bíla á leið út úr borginni hefur myndast. Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og myndlistarmaður er búsettur í Kænugarði og ræddi hann við Morgunblaðið.
„Ég vaknaði klukkan fimm í nótt og mjög fljótlega eftir það heyri ég tvær sprengingar. Síðan halda þær áfram, ein og ein og ein. Það eru að minnsta kosti sjö eða átta sprengingar sem ég er búinn að heyra,“ sagði Óskar í viðtalinu en talið er að Rússar séu nú að ráðast á flugvöllinn Boryspil.
Meðan á viðtalinu stóð heyrði Óskar í einni spenginu til viðbótar en netsamband og rafmagn er enn uppi.
Sagði hann Rússa vera að miða á flugvellina en hafði konan hans sem er frá Odessa séð myndskeið af sprengingum í Kharkiv svo að árásin væri ekki eingöngu á Kænugarð.
„Þegar ég lít út um gluggann hérna þá sé ég fullt af bílum vera að keyra upp götuna. Sem er nokkuð óeðlilegt svona snemma að morgni. Mér finnst líklegt að fólk sé bara að dúndra vestur,“ sagði hann en ætla þau sér ekki fara nema þau finni til óöryggis.
Óskar segir Pútin vera með þrjátíu þúsund manna herlið í Hvíta-Rússlandi.
„Hann hefur nefnilega ekki her til að taka yfir allt landið en hann hefur her til að eyðileggja helvíti mikið,“ segir Óskar.