Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Varúðarmerkin sjást alls staðar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimildamyndin UseLess eftir Rakel Garðarsdóttur og Ágústu M. Ólafsdóttur hefur verið á góðri siglingu síðustu mánuði en hún hefur nú unnið til fernra alþjóðlegra verðlauna. Í myndinni er fjallað um sóun og sérstök áhersla lögð á afleiðingar matar- og tískusóunar.

„Þetta er bara alveg meiriháttar. Þótt tilgangurinn með gerð myndarinnar hafi auðvitað verið að vekja fólk til umhugsunar um hvað við sjálf getum gert til að draga úr loftslagsbreytingum þá hjálpa svona verðlaun klárlega til að vekja athygli á henni og vonandi fá þau fleiri til að sjá hana,“ segir Rakel spurð út í gott gengi myndarinnar en UseLess hefur nú hlotið fern alþjóðleg verðlaun frá því að hún var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði í vor, þ.á m. Best Environmental Film Award á DOC LA-heimildamyndahátíðinni í Los Angeles og nýverið var myndin valin besta heimildamyndin á International Green Film Festival í Kraká í Póllandi.

Vakandi kveikjan að UseLess
Rakel hefur um árabil staðið fyrir aukinni vitundarvakningu um sóun matvæla í gegnum samtökin Vakandi sem hún stofnaði 2014 en það var einmitt starf hennar með þeim sem varð kveikjan að gerð myndarinnar. „Ég fæ mikið af beiðnum um að halda fyrirlestra um málið og það hefur komið fyrir að ég hafi ekki getað orðið við því. Það varð til þess að mér datt í hug að gera mynd sem gæti leyst mig af,“ lýsir hún, en í UseLess er fjallað um sóun og segir Rakel að með myndinni hafi þær Ágústa viljað leggja enn meira af mörkum til umræðunnar um matar- og tískusóun.

Spurð hvar henni finnist sú umræða eiginlega standa á Íslandi svarar hún því að það sé klárlega komin hreyfing á hlutina. „Sem dæmi hitti ég reglulega fólk sem hefur snúið við blaðinu og heimsæki fyrirtæki sem vilja gera betur,“ segir hún en bætir við að Íslendingar eigi þó enn langt í land hvað þetta varði. „Á Íslandi er t.d. rosalega mikill innflutningur á mat og öðrum varningi. Margt af því er auðvitað nauðsynlegt þar sem við búum á eyju en annað er algjör óþarfi og mér finnst sorglegt að það sé verið að flytja slíkan óþarfa í skipsförmum til landsins, einfaldlega vegna þeirra slæmu áhrifa sem það hefur á umhverfið. Það er bara eitt dæmi um hvernig óhóf sem er auðvitað einn angi matar- og tískusóunar, getur haft áhrif á umhverfið, á loftslagsbreytingar. En eins og við vitum eru þær breytingar farnar að hafa bein áhrif á daglegt líf okkar, sbr. skógareldarnir sem geisuðu í Svíþjóð og víðar um heim í sumar. Varúðarmerkin sjást alls staðar.“

Ágústa M. Ólafsdóttir og Rakel Garðarsdóttir standa að baki verðlaunamyndinni UseLess. Mynd/Aðsend.

Litlu hlutirnir skipta máli
Rakel heldur þó fast í vonina um að ástandið lagist og segist í því samhengi telja að aukinn stuðningur við innlenda framleiðslu, s.s. matvælaframleiðslu og efling nýsköpunar á Íslandi geti haft mikið að segja. „Svo skipir framlag hvers og eins auðvitað máli. T.d. að við reynum að nýta matvæli og föt betur en við gerum. Hlutir sem er svo auðvelt að breyta og sem geta haft svo mikil áhrif þegar við leggumst öll á eitt.“ Hún segist tala af reynslu þar sem hún hafi sjálf tekið sig mikið á í þeim efnum. „Og það er bara ekkert mál,“ segir hún hress. „Bara skemmtileg áskorun. Einföld atriði sem geta gert það að verkum að komandi kynslóðir eigi sómsamlegt líf.“

Spurð hvort verðlaunin sem UseLess hefur hlotið séu ekki til merkis um vissan meðbyr með þessum málstað, svarar Rakel því játandi og kveðst horfa björtum augum til framhaldsins þar sem til stendur að sýna myndina á kvikmyndahátíðum í Barcelóna, New York og Rússlandi á næstunni og síðar meir á RÚV. „Danska sjónvarpið, DR, er svo með dreifingarréttinn á myndinni og þau eru bara á fullu við að kynna hana sem mér skilst að gangi mjög vel,“ segir hún glöð.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -