Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Veganforeldrar óttaslegnir: „Sonur minn reynir alls staðar að komast í kjöt! Hvað gerum við?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hæ! Sonur minn sem er 5 ára og borðað grænkerafæði heima frá 2 ára aldri elskar kjöt og virðist kippa sér lítið upp við það hvernig það er búið til. Er einhver hér sem hefur reynslu af því fá barn til að hætta að borða kjöt og vill deila smá ráðum?“

Þessa spurningu má lesa í grænkerahóp foreldra á Facebook í dag en miklar umræður hafa spunnist um þráðinn. Ekki eru allir á sáttir um neikvæð umhverfisáhrif þeirra sem aðhyllast kjötneyslu barna og segja vandann stigvaxandi.

„Ég er búin að vera vegan í rúm 4 ár núna og maðurinn minn í 3 ár, sonur okkar sem er 5 ára er með mjólkur og eggjaofnæmi, fær ekki kjöt né fisk heima en reynir allstaðar annarsstaðar að komast í kjöt,“ segir móðir sú sem opnar á umræðuna og bætir því við að foreldrunum hafi þótt nægt „vesen“ fyrir leikskóla, ömmur og afa að barnið mætti hvorki fá matarafurðir sem innihéldu mjólk eða egg.

„Ég vildi óska að ég byggi á eyðieyju þar sem ekkert kjöt er á boðstólum“

„Núna hefur hins vegar okkar staðfesta aukist og við viljum helst ekki að hann borði kjöt,“ segir móðir barnsins jafnframt. Skóli og fjölskylda hafi verið eitt verkefni en nú standi foreldrarnir frammi fyrir því að barnið biðji um kjötafurðir að borða.

Langar ekki að barnið skammist sín fyrir löngun í kjöt

„Hann virðist vera að biðja um kjöt eingöngu af því honum finnst það gott á bragðið (skynja þetta allavega ekki sem mótþróa gagnvart okkur), við höfum alla tíð verið heiðarleg við hann um það hvað kjöt er og við höfum rætt það hvernig kjöt er búið til en það virðist ekki fá á hann. Hann veit að við erum grænkerar og að við borðum ekki dýr. Langar að hann sjái sjálfur ástæðu til að borða þetta ekki en það er kannski til mikils ætlast og á sama tíma langar mig ekki að hann upplifi þessa löngun sína í kjöt sem einhverja skömm eða að hann eigi sjálfur að bera ábyrgð á því kjöti sem hann svo borðar (eða líða þannig). Semsagt smá krísa, ráð og/eða vangaveltur vel þegnar!“

„Líklega er fyrsta skrefið að ræða við fullorðna aðila sem eru nærri okkur og eru mögulega að ota svona skilaboðum að honum„

- Auglýsing -

Einhver spyr hvort barnið sé að fá nægt prótein úr fæðu en dregur þó í efa hvort hreinn próteinskortur meðal barna valdi löngun þeirra sömu í kjöt. „Hafið þið prófað að lesa fyrir hann barnabækur eins og „Þess vegna borðum við ekki dýr?“ spyr önnur móðir og meðlimur í hópnum. „Er möguleiki að hann sé að fá skilaboð um að kjöt sé jákvætt eða nauðsynlegt annars staðar frá?“ spyr hún jafnframt og veltir þar með upp þeim möguleika að barnið hafi fengið hvatningu utan heimilis sem snúi að neyslu kjötvara.

Hvetja foreldra til að ræða við fullorðna aðila um skaðsemi kjötneyslu

Spurningin fellur í góðan hljómgrunn móður sem segir punktana vera góða og að barnið fái nægt prótein án þess að innbyrða kjötvörur, matarlystin sé með ágætum og baunir, linsur, hnetur, bulgur og fleiri afurðir úr jurtaríkinu séu ríkjandi á matseðli fjölskyldunnar. „Ætla að tékka á barnabókum! Og já, hann er að fá einhver svona skilaboð annarsstaðar, líklega er fyrsta skrefið að ræða við fullorðna aðila sem eru nærri okkur og eru mögulega að ota svona skilaboðum að honum, meðvitað eða ómeðvitað,“ svarar hún og á þar við möguleika neikvæða skilyrðingu sem hvetji til neyslu barna á kjötafurðum.

- Auglýsing -

Segja grænkera mæta sömu fordómum og neikvæðar staðalmyndir kynja

Barnlausir meðlimir blanda sér í umræðuna í hópnum og segir þannig ung kona skiljanlegt að erfitt sé að eiga við óæskileg skilaboð frá öðru fólki, sem hvetji gjarna grandalaus börn til neyslu kjötafurða þvert á vilja foreldra þeirra. Þá eigi grænkerar undir högg að sækja rétt eins og baráttufólk sem berjist gegn staðalímyndum kynjanna mæti oft mótspyrnu við málstað sínum. „Þetta á ekki bara við um veganisma, líka mikið um staðalmyndir kynjanna og alls konar svoleiðis. En varðandi veganisma þá er ennþá svo mikið af fólki sem heldur að þetta sé bara svakalega óhollt og heldur að það sé að gera rétt með því að berjast gegn því að börn séu alin upp vegan.“

Haframjólk, vegan-ostur og grænkerafæði uppistaðan í ískápnum

Tveggja barna móðir og grænkeri sem bendir þá á að barnið eigi að hafa val um eigið mataræði en segir yngri dóttur sína sem er þriggja ára gömul vera vegan. „Af því að ég ákvað það fyrir hana mjög snemma. Og hún bara sættir sig við að eitthvað sem hana langar í er ekki vegan. Ekkert vesen bara eitt lítið „ó, ókei“. Og hún bara veit að kjöt eru dýr og hún borðar ekki dýr.“ Þá segir sú hin sama eldri dóttur sína, sjö ára gamla og eiginmann hennar vera vegan. „En þar sem það er ég sem elda matinn og kaupi inn er bara vegan í boði heima. Ég kaupi bara haframjólk og vegan ost og álegg.“

„En þar sem það er ég sem elda matinn og kaupi inn er bara vegan í boði heima. Ég kaupi bara haframjólk og vegan ost og álegg“

Eldri stúlkuna segir hún þó vita um hvað málið snúist og að barnið borði kjöt og fisk í skólanum. „Henni er boðið í mat hér og þar og borðar bæði kjöt og fisk. Þegar við kaupum take-away kaupa þau feðginin oft saman eitthvað og ég og litla eitthvað. Mér finnst a.m.k. absalút að börnin eigi sjálf að hafa valið,“ svarar hún. „Ef litlan mín ákveður seinna að hún vilji borða dýr þá þarf ég að virða þá skoðun líka. Ég vildi óska að þau tækju þetta skref með mér en þau eru samt að hafa major áhrif þegar heimilishaldið er vegan þó þau fái sér óvegan eitthvað öðru hvoru.“

„Og það hlýtur líka að vera sjálfsagt fyrir foreldri að ráða því hvar barn situr þegar maturinn er borinn fram. Til dæmis ekki í húsi sem ber fram dýraafurðir„

Hlutverk foreldra sé að ákveða hvaða mataræði er börnum fyrir bestu

Foreldrar í grænkerahóp eru einróma um að mikilvægt sé að beita ekki þvingun við matarborð fjölskyldunnar, en skiptar skoðanir eru þó um hversu mikið svigrúm og skilning eigi að auðsýna dyntum og duttlungum yngstu kynslóðarinnar í eldhúsinu. „Þegar ég var fimm ára þá hefði ég örugglega valið að borða súkkulaði í öll mál ef það hefði verið mitt að velja. Ung börn hafa ekki þroska til að taka ákvarðanir um mataræðið sitt byggðar á öðru en hvað þau bara langar í. Mér finnst ekkert siðferðislega rangt við að taka ákvörðun um mataræði barnsins síns, svo lengi sem það felur ekki í sér einhverjar aðferðir sem eru niðurbrjótandi fyrir barnið,“ má lesa af svörum.

„Barnið hefur augljóslega ekki val um að borða súkkulaði í öll mál. Hvort sem það er vegan eða ekki“

„Hvað ef barn vill ekkert nema pizzur?“ spyr þá grænkerafaðir einn. „Á maður þá bara að gefa því pizzur og ekkert annað? Svarið er augljóslega nei og það er það sem þú munt segja og því er næsta spurningin, hver er munurinn? Er það ekki hlutverk foreldra að ákveða fyrir barn hvað er því fyrir bestu þegar kemur að mataræði? Hvers vegna er í lagi fyrir mig að neita barninu mínu um að borða nammi eða skyndibita en það er ekki í lagi fyrir mig að neita barninu mínu um að borða dýraafurðir?“

Alls ekki sjálfsagt að barni sé boðið í mat á öðru heimili

„Ég skil dilemmuna fullkomlega,“ svarar önnur grænkeramóðir í hópnum sem bendir á mikilvægi félagslegra tengsla og gildi vináttu utan heimilis. „Nú á ég sjö ára barn sem á orðið sitt eigið félagslíf. Henni er boðið í mat hér og þar. Það er alls ekki sjálfsagt að barn sé það félagslega sterkt að því sé yfirhöfuð boðið i mat á öðru heimili. Ég fagna því að henni sé boðið í lax heima hjá vinkonu sinni þegar ég er búin að elda tofu heima, sem ég veit að henni finnst ekkert sérstakt. Pabbinn skal hins vegar láta sig [að] hafa það því þetta er það sem er í boði,“ og uppsker svar grænkeraföður sem stígur fast til jarðar og segir einfaldlega: „Barnið hefur augljóslega ekki val um að borða súkkulaði í öll mál. Hvort sem það er vegan eða ekki. Það er borinn fram matur. Barnið borðar hann eða borðar hann ekki,“ en því svarar grænkeramóðir einfaldlega með orðunum: „Og það hlýtur líka að vera sjálfsagt fyrir foreldri að ráða því hvar barn situr þegar maturinn er borinn fram. Til dæmis ekki í húsi sem ber fram dýraafurðir.“

„Ég vildi óska að ég byggi á eyðieyju þar sem ekkert kjöt er á boðstólum,“ svarar tveggja barna grænkerinn og móðirin að endingu fyrirspurn í grænkerahóp foreldra, Vegan foreldrar á Íslandi. „Sannleikurinn er hins vegar sá að ég bý á eyju þar sem meirhluti íbúa eru kjötætur. Ég er leikskólakennari og þegar ég er spurð af 3 – 4 ára börnum af hverju ég vil ekki borða kjöt og af hverju ég drekk ekki mjólk get ég ekki annað en svarað því að ég borði ekki dýr og vilji að litlu kálfarnir fái mjólkina sína. Ég trúi því að dropinn holi steininn og þó ég geri ekki annað en að planta fræjum þá finnst mér tíma mínum vel varið.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -