Sigurður Hólm Gunnarsson, fyrrum formaður Siðmenntar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um málefni félagsins.
Í nýjasta tölublaði Mannlífs er fjallað um harkalegar deilur sem hafa átt sér stað í kringum stjórn Siðmenntar þar sem miklar hræringar hafa verið undanfarið ár. Rætt var við aðila sem þekkja vel til innan félagsins og lýstu þeir sinni upplifun af málinu.
Ritstjórn Mannlífs vill taka fram að leitað var til Sigurðar við vinnslu fréttarinnar þar sem hann kaus að tjá sig ekki efnislega um málið. Yfirlýsingu hans má lesa hér að neðan.
_____________________
Í blaðinu Mannlíf í dag, 15. mars 2019, er ótrúleg umfjöllun um Siðmennt sem er uppfull af rangfærslum sem ákveðnir einstaklingar innan félagsins hafa haft opinberlega. Þau sem hafa haldið þessum rangfærslum fram eru þau Bjarni Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, Helga Jóhanna Úlfarsdóttir, núverandi formaður, og að einhverju leyti Jóhann Björnsson fyrrverandi formaður. Fáir aðrir hafa tekið undir þetta enda öll gögn málsins skýr. Þar sem í umfjöllun blaðsins koma fram einhliða og rangar fullyrðingar hef ég tekið ákvörðun um að svara henni beint opinberlega og vísa í öll helstu skjöl málsins. Vitni að málsatvikum skrifa undir þessa yfirlýsingu neðst í þessu skjali.
Ég vona innilega að fljótlega komist vinnufriður á hjá félaginu á ný. Það er fullt af frábæru, góðhjörtuðu og hæfileikaríku fólki í Siðmennt og því ekki ástæða til annars en að horfa bjartsýnisaugum á framtíðina.
Í umfjöllun Mannlífs segir:
„Deilurnar virðast hafa náð hámarki síðastliðið vor þegar framkvæmdastjóri félagsins, Bjarni Jónsson, sagði af sér vegna aukins þrýstings frá stjórn félagsins að „stjórn og varamenn í stjórn fengju greidd laun fyrir hvert einasta viðvik“, eins og einn heimildarmanna kemst að orði. Í kjölfarið, eða um mitt síðasta sumar, ákvað þáverandi formaður [JB] félagsins, einnig að hætta.“
Þetta er rangt
1) Bjarni Jónsson sagði ekki aðeins af sér vegna þrýstings frá stjórn félagsins um launamál. Hann sagði af sér fyrst og fremst eftir að hafa fengið ítrekaðar athugasemdir um störf sín. Hann hafði áður, nokkrum sinnum, óskað eftir því að ræða hvort hann hefði traust stjórnar vegna gagnrýni. Ekkert af þeim málum snerist um launamál. Um þetta má allt lesa í erindi sem ég sendi félagsmönnum í Siðmennt 20. febrúar 2019. Þar er vísað í gögn, vitni og staðreyndir.
Sjá „Erindi til félagsmanna í Siðmennt sent 20. febrúar 2019”: https://docs.google.com/document/d/1Aanuzsmx0lX_XZ1DojRDfdB9uXnjiPPThsvX5VWcQSw/edit?usp=sharing
2) Það var enginn þrýstingur á að „stjórn og varamenn í stjórn fengju greidd laun fyrir hvert einasta viðvik“. Fyrir það fyrsta eru alls ekki allir í stjórn eða varastjórn í launaðri vinnu fyrir félagið og enginn með laun vegna stjórnarstarfa. Nokkrir í stjórn sinna vinnu í verktöku fyrir félagið. Þáverandi formaður, Jóhann Björnsson, var og er kennslustjóri og kennari í borgaralegri fermingu, Hope Knútsson þáverandi og núverandi meðstjórnandi starfar sem framkvæmdastjóri borgaralegrar fermingar og ég hef í mörg ár séð um öll vef- og tölvumál fyrir félagið, lengst af í sjálfboðavinnu. Bjarni Jónsson hafði alltaf stutt að Jóhann fengi greidd góð laun fyrir sína vinnu og að hann sjálfur fengi laun sem athafnastjóri félagsins meðan hann var í stjórn. Þetta snýst ekki bara um launamál eins og augljóst er af öllum gögnum málsins.
3) Jóhann Björnsson hætti svo heldur ekki út af launamálum heldur vegna þess að hann vildi ekki vinna með nýjum framkvæmdastjóra auk þess sem hann treysti sér ekki að starfa sem formaður á þessum umbrota- og álagstímum sem fylgdu því að framkvæmdastjóri sagði upp skyndilega og beðið var eftir að nýr tæki til starfa.
Allt þetta má staðfesta út frá gögnum málsins.
Í umfjöllun Mannlífs segir:
„Samkvæmt þeim greiddi Sigurður sér líka þrjá mánuði afturvirkt þegar hann tók við formennsku á síðasta ári“
Þetta er rangt:
1) Ég greiddi mér engin laun og ég fékk engin laun afturvirkt eftir að ég tók við formennsku félagsins. Auk þess er það ekki ég sem greiði neinum laun. Það gerir framkvæmdastjóri félagsins.
2) Stjórn félagsins, undir forystu Jóhanns Björnssonar sem þá var formaður, stofnaði sérstaka launanefnd til að fara yfir störf sumra í félaginu. Launanefndin skilaði af sér minnisblaði og eftir umræður um hana voru launakjör samþykkt samhljóma. Ég vék vitaskuld af fundi þegar sú afgreiðsla fór fram. Þar sem starf launanefndar dróst um nokkra mánuði var ákveðið að launabreytingar allar yrðu afturvirkar frá áramótum (frá janúar til mars 2018). Launanefnd fjallaði einungis um laun framkvæmdastjóra borgaralegra ferminga, aðstoðarmanns framkvæmdstjóra borgarlegra ferminga og vef- og tölvustjóra. Eftir breytingar voru þessir aðilar engu að síður með margfalt (7,5 sinnum) lægra tímakaup en kennslustjóri borgarlegra fermingar sem þá var formaður. Niðurstaða launanefndar var samþykkt af öllum í stjórn og allir sáttir.
Í umfjöllun Mannlífs segir:
„Samkvæmt fyrrnefndum heimildarmönnum versnaði daglegur rekstur félagsins eftir þau stjórnarskipti. „Það má segja að starfsemi félagsins hafi farið „hnignandi“. „Allt var gert á handahlaupum og öll skilaboð frá formanni voru óvönduð“
Þetta er rangt:
1) Daglegur rekstur fór ekki versnandi eftir að Jóhann sagði skyndilega af sér og ég þurfti að taka við sem starfandi formaður. Þvert á móti hefur vinnusemi stjórnar aldrei verið meiri. Um þetta geta allir viðstaddir vitnað til um. Það var þó erfitt að vera skyndilega án bæði framkvæmdastjóra og formanns og því vann það stjórnarfólk sem eftir var óvenju mikið á þessu tímabili til að vinna úr flóknum málum. Ekkert var gert á „handahlaupum“ heldur voru frekar teknar ákvarðanir um að fresta ákveðnum viðburðum til að allt sem gert væri yrði gert faglega.
2) Aðeins ein manneskja kvartaði yfir vondum samskiptum við mig á meðan ég var formaður. Það er núverandi starfandi formaður félagsins Helga Jóhanna Úlfarsdóttir. Hún hefur þó aldrei getað bent á hvaða samskipti eiga að hafa verið óvönduð þrátt fyrir að vera beðin um það ítrekað. Hún endurtók þessar athugasemdir sínar ásamt öllum þeim rangfærslum sem fjallað er um í umfjöllun Mannlífs á félagsfundi Siðmenntar 12. mars síðastliðinn. Aftur voru rangfærslurnar leiðréttar og aftur var hún spurð út í óvönduðu samskiptin og aftur var engu svarað.
Umfjöllun og upptöku af þeim fundi má skoða hér. Upptakan er þó aðeins aðgengileg félagsmönnum Siðmenntar eins og eðlilegt er:
https://docs.google.com/document/d/1jRN1mYL1VRtBA75Pvkyx7Z_Ti4OsYh2ZW5d1Vwr7jHo/edit?usp=sharing
Í umfjöllun Mannlífs segir:
„hefur Mannlíf eftir einum heimildarmanna sem bætir við að stjórnin hafi látið nokkra mánuði líða áður en nýr framkvæmdastjóri var ráðinn.”
Þetta er einnig rangt eins og má lesa um í „Erindi til félagsmanna í Siðmennt sent 20. febrúar 2019“.
Nánast allt sem fram kemur í umfjöllun Mannlífs er beinlínis rangt og það er auðvelt að sýna fram á það með gögnum. Því óska ég eftir því að fjölmiðlafyrirtækið leiðrétti þessar einhliða, röngu og meiðandi fullyrðingar.
Ítarefni
- Erindi til félagsmanna í Siðmennt sent 20. febrúar 2019
https://docs.google.com/document/d/1Aanuzsmx0lX_XZ1DojRDfdB9uXnjiPPThsvX5VWcQSw/edit?usp=sharing
- Fjölmiðlaumfjöllun og Félagsfundur Siðmenntar 12. mars 2019 – Samantekt
https://docs.google.com/document/d/1jRN1mYL1VRtBA75Pvkyx7Z_Ti4OsYh2ZW5d1Vwr7jHo/edit?usp=sharing
Sigurður Hólm Gunnarsson
- mars 2019
Undirrituð staðfesta að það sem hér segir er satt og rétt
Hope Knútsson, stofnandi Siðmenntar, formaður til 19 ára og stjórnarmaður frá upphafi
Auður Sturludóttir, fyrrum varaformaður Siðmenntar
Kristinn Theodórsson, fyrrum stjórnarmaður Siðmenntar og núverandi varamaður í stjórn
Þorsteinn Kolbeinsson, fyrrum og núverandi varamaður í stjórn
Margrét Pétursdóttir, fyrrum varamaður í stjórn
Sigurður Hólm Gunnarsson, fyrrum starfandi formaður Siðmenntar