Gagnrýna viðbrögð Icelandair og stéttarfélags.
Fjórir flugliðar Icelandair leituðu á sjúkrahús eftir að hafa fundið fyrir veikindum í flugi frá Edmonton á laugardag. Mannlíf fjallaði í síðasta tölublaði um fjölda flugatvika frá árinu 2016 þar sem starfsfólk flugfélagsins hefur jafnvel verið óvinnufært í lengri tíma eftir að hafa fundið fyrir svipuðum einkennum á flugi.
Blaðamaður hafði samband við starfsmenn sem leituðu á sjúkrahús eftir flugið frá Edmonton en þeir vildu ekki tjá sig um atvikið, lýsa einkennum eða hvort þeir væru á batavegi og bentu blaðamanni á að ræða við Icelandair.
Mannlíf hefur staðfestar heimildir fyrir því að í a.m.k. einu tilfelli hafi fundist eiturefnið TCP í hársýni flugliða sem veiktist í flugi.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, vildi ekki tjá sig sérstaklega um málefni einstakra starfsmanna. „Það virðist vera sem flestir séu að jafna sig, ég veit ekki betur,“ sagði hann í samtali við Mannlíf. Hann sagði jafnframt að ekkert væri hægt að útiloka um orsakir slíkra atvika og benti á að þau komi reglulega upp hjá flestum flugfélögum og megi yfirleitt rekja til lélegs loftflæðis vegna stífla í loftræstikerfi.
Mannlíf hefur staðfestar heimildir fyrir því að í a.m.k. einu tilfelli hafi fundist eiturefnið TCP í hársýni flugliða sem veiktist í flugi.
Fékk engar upplýsingar
Mannlíf hefur rætt við fjölda starfsmanna Icelandair í tengslum við málið m.a. flugliða sem ekki hafa getað snúið aftur til vinnu eftir að hafa fundið fyrir svipuðum einkennum í flugi. Einn starfsmaður gagnrýnir flugfélagið fyrir léleg viðbrögð í hans tilfelli. Hann hafi ekki fengið neina aðstoð eða upplýsingar frá vinnuveitanda sínum um hvert ætti að leita með sín mál. Þá segist viðkomandi hafa mætt háði og m.a. verið spurður hvort mögulega væri um þynnku að ræða.
„Það er ekki sagt eitt aukatekið orð, það eru allt of miklir hagsmunir,“
Starfsmaðurinn kallar eftir vitundarvakningu meðal almennings og Icelandair um veikindi flugáhafna vegna mengaðs lofts í rýmum flugvéla sem tekið er í gegnum hreyfla. Fyrirbærið hafi verið þekkt í flugheiminum áratugum saman og sé kallað Airotoxic-heilkennið.
Vill að Flugfreyjufélagið stígi fram
Flugliði sem Mannlíf ræddi við er harðorður í garð Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og vill að stéttarfélagið sé leiðandi í umræðunni um þessi mál þannig að bæði almenningur og flugáhafnir séu upplýst um hættuna sem getur stafað af lélegum loftgæðum um borð í flugvélum. „Það er ekki sagt eitt aukatekið orð, það eru allt of miklir hagsmunir,“ segir starfsmaðurinn og bendir á að stjórnendur stéttarfélagsins séu einnig starfsmenn flugfélaganna.Fyrir tveimur vikum sagðist Berglind Hafsteinsdóttir, formaður FFÍ, ekki vilja tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Síðan þá hefur hvorki ítrekuðum símtölum né tölvupósti verið svarað.
Nýr tölvupóstur sendur á starfsfólk
Eftir að Mannlíf ræddi við Icelandair í tengslum við dularfull veikindi flugliða sendi félagið starfsmönnum sínum tilkynningu í tölvupósti.
Farið er yfir aðgerðir flugfélagsins til að tryggja öryggi starfsmanna og tekið fram að atvikin séu misjöfn og tengist ekki einstökum flugvélum. Skoðanir hafi ekki sýnt fram á skert loftgæði.
Staðfest er eitt tilfelli þar sem sýni úr áhafnarmeðlimi var jákvætt fyrir TCP (rokgjarnt lífrænt efnasamband) sem má finna í mörgum tegundum smurolíu. Upptök efnisins í sýninu hefur ekki verið staðfest. Tekið er fram að ekki hefur mælst TCP um borð í vélum félagsins sem nota slíkar tegundir olíu.