Kári Stefánsson segir skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir COVID-19 hafa gengið vel. Búið er að skima rúmlega 1.800 og þar af voru 19 smitaðir. Kári segir þessar tölur gefa til kynna að veiran sé ekki eins útbreidd í samfélaginu og hann hafði óttast.
Kári segir skimun Íslenskrar erfðagreiningar hafa leitt í ljós að báðir stofnar kórónuveirunnar hafa greinst hérlendis, það er S-stofn og L-stofn. S-stofninn kemur að öllum líkindum frá vesturströnd Bandaríkjanna en L-stofn frá Evrópu að sögn Kára. Hann segir að útlit sé fyrir að L-stofn sé „illskeyttari“ afbrigði en S-stofn veirunnar. Þessu greindi hann frá í viðtali við morgunútvarp Rásar 2.
Ætla að senda sýnatökupinna út á land
Staðfest smit eru 180 en flest komu upp á höfuðborgarsvæðinu. Spurður út í skimun á landsbyggðinni segir Kári að planið sé að fylgjast með hvernig veiran dreifist fyrir utan höfuðborgarsvæðið. „Það stendur til að senda sýnatökupinna út á landsbyggðina, ekki spurning, það verður að gera það,“ segir Kári.
Segir ríkisstjórnina eiga hrós skilið
Kári sagði Ölmu Möller landlækni, Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni og Víði Reynisson yfirlögregluþjón hafa staðið staðið sig afar vel að hans mati. Hann segir ánægjulegt að sjá að þau séu yfirveguð og láti ekki þrýsta á sig hvað ákvarðanir varðar.
Hann benti á að í sumum ríkjum eru ákvarðanir teknar út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki lýðheilsusjónarmiðum. Hann bætti við að það sé aðdáunarvert að sjá að ríkisstjórnin taki mark á sérfræðingum í heilbrigðismálum. „Þá þarf líka að hrósa ríkisstjórninni, þó manni þyki það ekki sérlega ljúft,“ sagði Kári.