Óttar M. Norðfjörð og fjölskylda eru í útgöngubanni á Spáni. Hér lýsir hann þeim breytingum sem veiran er byrjuð að hafa á líf hans, fjölskyldunnar og heiminn allan.
Á tímum sem þessum lærir fólk að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut og það gildir líka um hvort annað. Ég á nágranna hérna í Barcelona sem ég heyri stundum rífast, en ég hef ekki heyrt bofs í þeim síðan að útgöngubannið hófst. Getur verið að þau, eins og aðrir, sjái loksins hvað skiptir raunverulegu máli? Ég vona að minnsta kosti að það sé ástæðan fyrir þögninni frá íbúð nágrannanna og ekki eitthvað annað.
Sjálfur hef ég byrjað að haga mér öðruvísi síðan að veirufaraldurinn skall á, enda hefur hún neytt mann til að breyta lífsmynstri sínu. Ég er til dæmis byrjaður að skammta morgunmúslíið mitt, því ég vil ekki fara í búðina sem selur það, enda er hún stór og vinsæl og ávísun á smit.
Í gær braut strákurinn minn flugnaspaðann okkar – lífsnauðsynlegt tól í landi moskítóflugunnar – en í stað þess að henda honum og reyna að kaupa nýjan teipaði ég þann gamla saman.
„Það er eins og vírusinn hafi ýtt á endurræsingu heimsins og fengið okkur öll til að stoppa og hugsa um þá átt sem við vorum að æða í, hvert í sínu horni.“
Og svo eru það blöðrurnar sem ég minntist á að framan. Þær eru óvænt orðnar það verðmætasta sem við eigum, enda hvetja þær strákinn okkar til að hlaupa um stofuna og fá smávegis útrás, en gallinn er hins vegar sá að þær eru byrjaðar að missa loftið. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi ég henda þeim og kaupa nýjar, en ég hef ekki hugmynd um hvar ég get keypt blöðrur í Barcelona þessa síðustu og verstu. Einungis búðir sem selja nauðsynjavörur fá að opna og mér skilst að blöðrur teljist enn ekki til þess hér í landi. Ég er þess vegna byrjaður að endurnýta þær með því að losa hnútinn á þeim með alls kyns krókaleiðum og blása í þær aftur. Aldrei á ævinni hefði mér dottið það í hug áður. Kórónuveiran ræðst nefnilega ekki bara á fólk, heldur líka á sjálfar undirstöður þess kerfis sem við höfum byggt okkur. Hún neyðir okkur til nýtni og að draga saman seglin.
Það er raunar magnað að sjá hversu hratt hlutirnir geta breyst. Við Íslendingar fengum auðvitað smáæfingu í því í hruninu. Þá varð líka eitthvert rof í veruleikanum sem saug allt til sín svo ekkert annað komst að. Það sama er uppi á teningnum nú. Á aðeins örfáum dögum hefur sjálf heimsmyndin orðið önnur. Götur eru að mestu tómar eins og í heimsendamynd og þær fáu hræður sem læðast um með grímur og hanska fara varlega um. Það er enginn að flýta sér lengur, það er enginn seinn lengur. Það er búið að hægja á öllu og fólk sýnir hvert öðru meiri tillitssemi og þakklæti en áður. Barcelona virkar líka hreinni, loftið er ekki eins mengað vegna mun minni umferðar og öll kvöld fer fólk út á svalir til að klappa fyrir hetjunum sínum, heilbrigðisstarfsmönnum landsins. Lófatakið og gleðiópin eru svo há að þau dynja um allt hverfið mitt á slaginu átta. Það er eins og vírusinn hafi ýtt á endurræsingu heimsins og fengið okkur öll til að stoppa og hugsa um þá átt sem við vorum að æða í, hvert í sínu horni. Hann er að neyða okkur til samstöðu og samhugs einmitt þegar við þurftum mest á því að halda. Spurningin er bara hvort þetta verði varanlegt eða hvort allt detti í sama farið um leið og þessu lýkur.
Nánar í helgarblaðinu Mannlíf.
Texti / Óttar M. Norðfjörð
Myndir / Elo Vázquez