„Talið er að orsök þess sjúkdóms sé nautgripakórónuveira, sem hefur þó ekki verið staðfest“.
Matvælastofnun biður kúabændur að huga vel að sóttvörnum vegna bráðsmitandi veiruskitu sem nú geisar í Eyjafjarðarsveit.
Virðist sjúkdómurinn einnig hafa skotið upp kollinum í Þingeyjarsýslu og Héraði.
Sjúkdómurinn smitast með slími frá nösum og saur og berst hún auðveldlega með fólki, fatnaði og tækjum.
„Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum,“ segir í tilkynningu MAST en tekið skal fram að sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki.
Þá geti afleiðingar sjúkdómsins verið bæði langvarandi og alvarlegar á þann hátt að veikja ónæmiskerfi kúnna.
„Þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum. Sýkingin eykur hættu á doða hjá kúm sem komnar eru nálægt burði þegar þær veikjast“.
Vonast MAST til að bændur hugi vel að öllum sóttvörnum og dragi úr umgengni við utanaðkomandi fólk til að stöðva frekari útbreiðslu.