„Allt ofbeldi eða hótanir um ofbeldi í garð starfsmanna Matvælastofnunar verður kært til lögreglu“, segir á vef Matvælastofnunar.
Stofnunin hefur óskað eftir rannsókn lögreglu vegna atviks þar sem veist var að starfsmanni stofnunarinnar þegar hann var að sinna eftirliti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST en þar segir að um sé að ræða þriðja sinn á þremur árum þar sem stofnunin hefur þurft að vísa máli til lögreglunnar eftir að veist hefur verið að starfsmanni.
Viðurlög eru við því að ráðast með ofbeldi eða hótunum á opinberan starfsmann þegar hann sinnir skyldum sínum. Það getur verið allt frá sekt upp í sex ára fangelsi.