Fordómar koma oft upp á yfirborðið þegar hryðjuverkaárásir, sem beinast að afmörkuðum hópum, eiga sér stað. Það mátti sjá þetta í athugasemdakerfum íslenskra fjölmiðla þegar árásin var gerð á Nýja-Sjálandi.
Þá komu fljótlega fram athugasemdir frá Íslendingum, sem sögðu: „Vel gert“, „Gott“ og þar fram eftir götunum. Fögnuðu árásinni. Ritstjórn Vísis tók þá ákvörðun að taka athugasemdirnar fljótalega út af Internetinu, enda hatursorðræða bönnuð.
Algengt er að hryðjuverkaárásir ýti af stað hatursorðræðu og jafnvel magni upp líkur á fleiri árásum, fljótlega á eftir. Þetta er vandmeðfarið þar sem miklar tilfinningar eru oft ríkjandi í kringum skelfilegar árásir á saklaust fólk. Samfélagsmiðlarnir gefa fólki gjallarhorn til að tala í við umheiminn og koma þannig meiningum sínum á framfæri.
Hefðbundnir fjölmiðlar þurfa í þessum aðstæðum að feta þann slóða, að halda sig við að svara mikilvægum spurningum, draga fram upplýsingar sem skipta máli og setja hlutina í samhengi. Það er ekki hægt að halda óþægilegum atriðum frá almenningi í slíkri vinnu, heldur frekar að setja þau þannig fram að fólk átti sig á alvarleikanum sem sprottið getur upp úr hatursorðræðunni.
Greinin er hluti af ítarlegri umfjöllun Kjarnans sem birtist í Mannlífi á föstudaginn og fjallar um uppgang hættulegrar hugmyndafræði hvítra kynþáttahatara.