Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Venom skemmtilegust til þessa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elmar Bragi Einarsson lét gamlan draum rætast og lærði tæknibrellugerð á Englandi. Í dag vinnur hann að stórum og spennandi verkefnum, eins og Venom, Avengers og Dark Crystal.

Elmar var einn margra sem tók þátt í gerð Avengers: Endgame og er ekki eini Íslendingurinn, því Heba Þórsdóttir förðunarmeistari vann bæði að henni og forveranum Avengers: Infinity War.

Þótt nafnið Elmar Bragi Einarsson klingi kannski ekki bjöllum hjá mörgum þá hefur hann á síðustu árum skapað sér nafn innan kvikmyndabransans úti í heimi eftir að hafa unnið að gerð stórra mynda, á borð við Venom og Avengers: Endgame. Blaðamaður sló á þráðinn til Elmars sem býr í Ósló og spurði út í ferilinn og þátt hans í þessum stórvirkjum. „Ég var sem sagt einn þeirra mörgu sem kom að tölvubrellunum. Bjó til einhverja neista, slef og já, svarta slímið í andlitinu á Venom, en ég var í einhverja þrjá mánuði að vinna að þeirri mynd. Ætli hún sé ekki bara eitt skemmtilegasta og mest krefjandi verkefni sem ég hef komið að,“ segir hann hugsi, „og kannski svolítið draumaverkefni líka þar sem maður las um þennan karakter í Spiderman-blöðunum þegar maður var krakki.“

Þannig að þú hefur þá verið svolítill nörd í þér alveg frá því að þú manst eftir þér? „Já, ætli ég geti ekki sagt það, sérstaklega þegar kemur að bíómyndum. Maður horfði náttúrlega mikið á myndir, eins og Star Wars, Indiana Jones, Jurassic Park og E.T. og svona, í æsku og þegar ég fór úr húsi kvaddi pabbi mig oft með Star Wars-línunni: Megi mátturinn vera með þér eða May the force be with you,“ segir hann kíminn.

Lærði í einum besta brelluskóla í heimi
Elmar segir að áhuginn á kvikmyndagerðinni hafi sömuleiðis kviknað snemma. Þannig hafi hann ungur að aldri sótt nokkur námskeið í stuttmyndagerð á Lunga á Seyðisfirði og eftir það ákveðið að skrá sig í nám við Margmiðlunarskólann en það hafi svo orðið til þess að hann ákvað endanlega að leggja tæknibrellugerð fyrir sig.

„Fyrst vissi ég nú reyndar ekki hvert það myndi leiða,“ viðurkennir hann fúslega, „en eftir að aðilar frá Bournemouth-háskóla heimsóttu skólann og kynntu meistarnám í stafrænni brellugerð vissi ég strax að það væri eitthvað sem ég vildi læra, enda skólinn einn sá besti á því sviði. Þannig að eftir Margmiðlunarskólann fór ég út til Bournemouth í meistarnám og svo beint út á atvinnumarkaðinn. Vann lengi hjá DNEG (dneg.com) í London en síðan ákváðum við kærastan mín, Katla Mist, að flytja til Ósló þar sem við réðum okkur til starfa hjá StormStudios (stormstudios.no), fyrirtæki sem á meðal annars heiðurinn að „intróinu“ í Black Panther og Pixels,“ útskýrir hann glaður og er auðheyrilega búinn njóta sín fram í fingurgóma, bæði í námi og starfi.

Elmar vann nýverið að þáttum sem byggja á hinni sígildu mynd Dark Crystal.

Hrikalega gaman í vinnunni
Er ekki ferlega gaman að flakka svona á milli landa og vera í þeirri aðstöðu að geta unnið að sínu helsta áhugamáli? „Jú, hrikalega gaman,“ svarar hann hiklaust. „Enda hef ég ekkert út á þetta starf að setja. Ef ég þyrfti að segja eitthvað þá væri það kannski helst það að stundum getur þetta skemmt fyrir manni söguþráðinn í myndunum sem maður er að vinna að. En annars er þetta alveg frábært í alla staði.“

„… maður er búinn að vera að horfa á þessar myndir í mörg ár og svo er maður bara allt í einu orðinn hluti af þessu stóra batteríi.“

Spurður hvað sé svo næst á döfinni segist Elmar vera með nokkur verkefni í gangi í augnablikinu. Hann hafi til að mynda verið að vinna að nýjum þáttum fyrir Netflix sem kallast Dark Crystal. Þeir séu líklegast næsta verkefni sem komi fyrir sjónir almennings en því miður geti hann ekki rætt þá að neinu ráði þar sem þeir séu enn í vinnslu. „Eina sem ég get sagt er að þeir byggja á samnefndri mynd úr smiðju Jims Henson, skapara Prúðuleikaranna, en ég var einmitt mikill aðdáandi hennar þegar ég var krakki og dauðhræddur við hana líka,“ segir hann hlæjandi og bætir við að það sé svolítið skrítið að vera að vinna að verkefni sem tengist æskunni. „Eins með Avengers, maður er búinn að vera að horfa á þessar myndir í mörg ár og svo er maður bara allt í einu orðinn hluti af þessu stóra batteríi. Sem er alveg grámagnað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -