Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Vera segir martröðina blasa við og vill aðgerðir strax í loftslagsmálum: „Það er núna eða aldrei“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þessi skýrsla er náttúrlega okkar versta martröð í rauninni vegna þess að hún sýnir svart á hvítu að aðgerðirnar sem hafa verið teknar eru ekki nóg og það þarf að ganga miklu lengra,“ segir Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Kolsvört skýrsla sérfræðihóps milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) var kynnt í vikunni en vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum eiga sér stað alvarlega loftslagsbreytingar. Öfgar í veðurfari svo sem miklar rigningar og hitabylgjur og þurrkar verða tíðari sem þýða hamfarir. Í skýrslunni kemur fram að lausnir séu mögulegar.

„Það er ekki lengur hægt að hafa loftslagsmálin sem pólitískt mál; þetta er ekki lengur spurning um pólitík. Þetta er í rauninni spurning um áframhaldandi lífsgæði mannkyns og í rauninni hvort mannkynið muni lifa af þær hörmungar sem við erum að kalla yfir okkur með allri okkar mengun og ásókn á landgæði og sjávargæði.“

Nú eða aldrei

Vera segir að nú sé tíminn. „Það er núna eða aldrei. Það er bara að duga eða drepast. Það eru kosningar fram undan á Íslandi og það er mikilvægt að allir flokkarnir setji sér mjög skýra stefnu í sjálfbærni sem snúi ekki bara að loftslagsmálum vegna þess að sjálfbærni er ekki bara loftslagsmálin. Þetta tvinnast allt saman. Það er í rauninni ekki hægt að vinna gegn loftslagsmálum án þess að vinna að sjálfbærri þróun og þá koma að sjálfsögðu inn í þetta líka mannréttindi, félags- og efnahagsleg staða fólks, líf og heilsa og svo náttúrlega hagkerfið. Það er bara spurning hvort hagkerfið sem við búum við í dag sé í rauninni í stakk búið til að takast á við þetta. Er hægt að hafa hagvöxt og sjálfbærni á sama tíma? Þetta er eitthvað sem margir velta upp.“

Félag Sameinuðu þjóðanna er meðframleiðandi að sjónvarpsþáttunum „Hvað höfum við gert?“ og „Hvað getum við gert?“ „Í þeim þáttum má sjá þær fjölmörgu lausnir sem eru fyrir hendi og það þarf bara að hafa dug og þor og hætta að hugsa í fjögurra ára kjörtímabilum. Það verða einhverjir að fórna sínum pólitíska ferli fyrir framtíðina. Það á ekkert bara við á Íslandi. Íslendingar þurfa að sjálfsögðu að spýta í lófana og gera sitt til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Íslendingar þurfa líka að vera leiðandi í umræðunni. Ísland hefur nefnilega mörg tækifæri á sviði umhverfismála. Við erum með þrjá skóla innan GRÓ sem er þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Þeir eru Sjávarútvegsskóli Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO, Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Það er frábær leið í þróunarsamvinnu að efla og styrkja þekkinguna í fátækari ríkjum heims en líka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og þá geta Íslendingar beitt sér þótt við séum fámenn þjóð. Það sást með setu Íslands í mannréttindaráðinu að við höfðum þar sterka rödd og að við þurfum ekki að vera feimin við að taka málefni föstum tökum og berjast fyrir þeim. Við þurfum náttúrlega að taka til heima fyrir og passa okkur á að vera góð fyrirmynd.“

 

Íslendingar þurfa að sjálfsögðu að spýta í lófana og gera sitt til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

- Auglýsing -

Vera er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í öryggis- og varnarmálafræðum frá Georgetown háskóla. Hún hafði starfað hjá Sameinuðu þjóðunum erlendis í þrjú ár áður en hún tók við stöðu framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi árið 2016 en hún vann hjá UNICEF í Sómalíu og UNRWA (Palestínuflóttamannaaðstoðinni) í Líbanon.

Störf hennar í þessum löndum höfðu áhrif á hana.

„Ég sá hvað lífið er raunverulega ótrúlega auðvelt á Íslandi. Ég ætla ekki að gera lítið úr fólki sem upplifir Ísland ekki þannig en auðvitað eru alltaf einhverjir sem hafa það mjög erfitt. Hlutirnir á Íslandi eru bara mun einfaldari heldur en til dæmis í þessum löndum svo sem hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og námi og það að ná sér í gott internet. Það ríkir mikil efnishyggja hjá okkur en ekki til dæmis í Sómalíu.“ Vera nefnir nægjusemi íbúa þar og segir að Íslendingar mættu vera nýtnari og minnka neysluna. „Úrgangur heimsins er náttúrlega bara afleiðing neyslu. Það lærði ég.“

- Auglýsing -

Vera varð á þessum árum vitni að ýmsu sem fæstir Íslendingar upplifa. „Það var erfitt þegar ég fór að vinna hjá UNICEF í Sómalíu. Hálfum mánuði áður en ég hóf þar störf hafði verið gerð sprengjuárás á rútu starfsmanna UNICEF sem flutti starfsfólk á milli skrifstofunnar og gististaðarins. Fjórir létust og enn fleiri slösuðust. Sameinuðu þjóðirnar eru skotmark og þetta gerðist fyrir starfsmenn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem talað er um í öryggisfræðunum að sé viðkvæmasta skotmarkið.“

Vera hóf þarna störf á meðal syrgjandi samstarfsmanna og þar sem hún þekkti ekki fórnarlömbin fékk hún það verkefni að afhenda fjölskyldum þeirra sundurskotin seðlaveski þeirra og blóðuga peninga sem í þeim voru.

Vera Knútsdóttir

Vera hitti ástina í lífi sínu í Líbanon og eru þau gift. Hann er frá Írak, heitir Seerwan Shawqi og starfar sem öryggisfulltrúi hjá UNMAS þar í landi. Þau eiga tvær dætur, tveggja og fjögurra ára, og í fyrra fékk Seerwan íslenskan ríkisborgararétt og er því með tvöfaldan ríkisborgararétt í dag. Vera flutti til Íslands þegar hún tók við starfi framkvæmdastjóra Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og hefur Seerwan því komið af og til til landsins til að hitta fjölskyldu sína.

 

Hálfum mánuði áður en ég hóf þar störf hafði verið gerð sprengjuárás á rútu starfsmanna UNICEF

Vera vill breyta til. Hún saumaði sem barn og unglingur og byrjaði á því aftur í fæðingarorlofi. Það varð til þess að áhuginn kviknaði og varð svo mikill að hún setti á stofn vefverslun, litlamusin.is, þar sem hún selur efni sem hún flytur inn auk þess sem hún sérsaumar barnaföt eftir pöntunum. Þetta hefur gengið það vel að hún ætlar að fara í ársleyfi frá Félagi SÞ og einbeita sér að þessu nýja ævintýri og í haust ætlar hún auk þess að bjóða upp á dömufatnað.

 

Vera Knútsdóttir

„Mér fannst vanta lífræn efni, sjálfbæra vefnaðarvöru, þegar ég fór að sauma í fæðingarorlofinu þannig að ég fór að flytja inn efni. Svo fór þetta að vinda upp á sig og fór að sauma föt og selja. Ég hugsa út í hvaðan fötin mín koma og hverjir bjuggu þau til þannig að ég er farin að sauma næstum því öll mín föt sjálf. Ég vil geta boðið upp á eins sjálfbæran fatnað og hægt er á Íslandi og eitthvað sem fólki líður vel í.“

Bómullin er tínd í Indlandi og efnin eru framleidd á Evrópu. „Ég er með sænska, finnska, hollenska og þýska hönnun.“

Vera Knútsdóttir

Dömufatnaðurinn verður seldur undir merkinu Er Design og mun Vera leggja áherslu á að sérsauma fyrir hvern viðskiptavin. „Stundum er erfitt að finna flík sem hentar af því að það eru ekki allir eins vaxnir. Ég hef verið að dútla mér við að breyta sniðum og teikna upp mín eigin og svo verð ég með eigin hönnun á efnum; þetta er reyndar ekki mín hönnun þannig lagað heldur hönnun sem var gerð fyrir mig eftir mínum óskum þannig að mynstrin verða einstök fyrir mína hönnun. Þetta verður allt úr lífrænni bómull og þegar um gerviefni er að ræða verða þau með vottun. Áherslan verður á „slow fashion“ vegna þess að tískuiðnaðurinn er náttúrlega stórmengandi.“

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -