Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Verðandi móður ekki sagt að hún væri GBS-beri: „Sonur okkar er með heilaskaða“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjögurra daga drengur sem kom í heiminn eftir 33 vikna meðgöngu móður veiktist lífshættulega af heilahimnubólgu á vökudeild Landsspítala fyrr í vor og var um hríð í öndunarvél. Orsökin er völdum streptókokka í fæðingarvegi en þrátt fyrir að upplýsingar þær væri að finna í meðgönguskjölum var móður ekki greint frá því að hún væri GBS-beri.

Að sögn móður barnsins, Karenar Ingólfsdóttur, gekk fæðingin einkar vel en drengurinn fæddist þann 3. apríl sl. Faðir drengsins heitir Ragnar Hansen og var viðstaddur fæðingu og dvaldi með Karen á sængurdeild eftir fæðinguna. Það var að kvöldi þann 7. apríl þegar líða tók að heimferð fjölskyldunnar af fæðingardeild sem bera tók á öndunartregðu hjá barninu. „Þetta kallast ambrandi öndun og við vildum láta kíkja á hann sem var loks gert með trega,“ segir Karen.

„Ljósmóðirin sem var með okkur þetta kvöldið tók drenginn yfir á vökudeildina um klukkan eitt þá um nóttina og lét að mínu mati eins og hún væri að gera okkur foreldrunum greiða.“

„Það eina sem ég gat var að spyrja hvort hann væri að deyja“

Karen segir að þegar klukkan hafi slegið þrjú þá um nóttina og komið var að næstu brjóstagjöf, hafi foreldrarnir vaknað og óskað þess við starfsfólk spítala að mega sjá drenginn. „Þegar við komum yfir [á vökudeild] tók hræðileg sjón við. Þar lá litli drengurinn okkar og sægur starfsfólks stormandi yfir honum. Ég leit á monitor sem hann var tengdur við og hjartsláttur barnsins var 225 slög á mínútu. Það eina sem ég gat var að spyrja hvort hann væri að deyja“.

Um hríð vissi enginn hvað gæti amað að litla drengnum og fengu foreldrarnir einfaldlega að vita að barnið væri veikt, án frekari skýringa. „Á næstu klukkustund var barnið tengt við alls kyns tæki og tekin voru próf af litla syni okkar. Við fórum grátandi aftur inn í foreldraherbergið á spítalanum og vissum ekki hverju við mættum eiga von á.“

- Auglýsing -

Streptókokkasýking orsök heilahimnubólgu hjá litla drengnum

Niðurstöður lágu ljósar fyrir þegar morgun rann upp. Litli drengurinn hefði sýkst af GBS streptókokkasýkingu og var kominn í öndunarvél þar sem sýkingin hafði valdið heilahimnubólgu hjá nýfæddu barninu. „Við vorum leidd inn í gjörgæsluherbergi þar sem sonur okkar var tengdur við öndunarvél og við fengum að vita hvað væri að hrjá barnið; hann hafði sem sagt sýktst af GBS streptókokkasýkingu og fengið heilahimnubólgu í kjölfarið. Okkur var sagt að nýfæddur sonur okkar væri það veikur að þetta væri orðið spursmál um klukkustundir í lífi barnsins.“

Lífslíkur drengsins í klukkustundum talið

- Auglýsing -

Karen segir foreldrana hafa kallað til nánasta fólk í skyndi til skírnar. „Við skírðum drenginn og fjölskyldan fékk að kveðja hann. Eftir þessa fallegu athöfn vorum við í rosalega lausu lofti og vissum ekkert hvað biði okkar nú“.

Óvissan grúfði yfir litlu fjölskyldunni næstu daga og segir Karen að þau hafi beðið á milli vonar og ótta. „Mun hann sigra þetta eða ekki. Það var spurningin. Yndislega starfsfólkið á vökudeild gerði allt til að bjarga mætti litla drengnum okkar. Þau vildu ekki gefast upp og svo sannarlega tókst þeim að bjarga barninu. Litli drengurinn okkar barðist líka eins og hetja og sigraði“.

Drengurinn, sem hlaut nafnið Friðrik Ragnar Hansen, ber að sögn Karenar heilaskaða eftir lífshættuleg veikindin og segir hún að tíminn verði að skera úr um hversu alvarlegar afleiðingar verði. „Ég er svo reið, því ég vissi ekki að ég væri GBS beri. Ég skoðaði mæðraskýrslurnar og þar stendur að ég sé með þetta, en mér var aldrei sagt frá því,“ segir Karen jafnframt.

Spurð á vökudeild hvort hún hefði fengið upplýsingar á meðgöngu

„Það var læknir á vökudeild sem spurði mig loks hvort ég hafi ekki verið upplýst um að ég er GBS beri. Ég kom af fjöllum en þegar ég fékk að skoða skýrsluna sjálf sá ég orðin GBS beri með eigin augum. Þessu var mér aldrei sagt frá og þar af leiðandi fékk ég engin sýklalyf í fæðingunni“.

Karen segist sannfærð um að sýklalyfin hefðu afstýrt lífshættulegum veikindum barnsins. „Já, ég tel að sýklalyfin hefðu hindrað veikindin. Sonur okkar er með heilaskaða á sjónsvæði og hreyfisvæði og mun framtíðin leiða í ljós hversu mikill skaðinn er.“

Heiladingull barnsins varð fyrir skaða 

Karen segir einnig að heiladingull barnsins hafi orðið fyrir skaða og haft áhrif á natríummagn líkamans. „Hann skilaði öllum vökva með þvagi en saltið sat eftir í líkamanum. Hann varð lífshættulega hár í natríumgildi og fær því þvagræsilyf tvisvar á dag. Við þurfum að vigta allan vökva sem fer inn og út og skrá niður. Hann fer svo í blóðprufur tvisvar sinnum í viku til að mæla natríumgildið en hann er líka í góðu eftirliti hjá taugalækni. Eins og staðan er í dag vitum við ekki enn hvaða áhrif veikindin muni hafa.“

Þakklát hjúkrunar- og læknateymi þrátt fyrir eðlilegan ótta 

Foreldrarnir hafa notið sálgæslu hjá Barnaspítalanum en fjölskyldan hefur vissulega lagt erfiðan tíma að baki undanfarnar vikur. „Þetta hefur ekki bara áhrif á foreldrana heldur líka á stelpurnar okkar og aðra fjölskyldumeðlimi sem hafa staðið þétt við bakið á okkur allan tímann, á öllum tímum sólarhrings og gera enn.“ Karen segist þakklát hjúkrunarteymi, ljósmæðrum og læknum á vökudeild sem björguðu lífi Friðriks litla Ragnars. „Þau björguðu lífi litla drengsins okkar og fyrir það verðum við þeim ævinlega þakklát,“ segir hún.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -