Í verðkönnuninni að þessu sinni skoðaði Mannlíf verðið á pararáðgjöf hjá níu aðilum sem bjóða upp á slíka meðferð.. Það getur stundum verið nauðsynlegt fyrir hjón/pör að leita sér aðstoðar hjá utanaðkomandi aðila ef vandamál eru í sambandinu sem þarf að reyna að leysa úr. Það er einnig mjög gott að leita annað slagið til slíkra aðila þó að allt sé gott í hjónabandinu/ sambandinu það þurfa ekki endilega að vera vandamál til staðar.
Oft er það því miður þannig að fólk hefur ekki efni á slíkri þjónustu og þá skiptir auðvitað máli að kynna sér verð. Tekið er fram að á sumum heilsugæslustöðvum og hjá kirkjunni er oft veitt slík meðferð án endurgjalds svo vert er að skoða það fyrst, ef til vill. Að öðrum kosti má líta í kringum sig meðal annars með verð í huga.
Verð fyrir könnunina voru fengin með því að hringja á staðina og fá þau uppgefin. Í töflu hér að neðan er einnig tilgreind menntun þeirra sem þjónustuna veita en það eru yfirleitt sálfræðingar og fjölskyldufræðingar. Þó sinna félagsráðgjafar og prestar einnig slíkri þjónustu. Til eru svo kynlífsráðgjafar sem sérhæfa sig sérstaklega í öllu sem viðkemur kynlífi og geta pör auðvitað leitað til þeirra ef um slíkan vanda er að ræða, þó eru þeir ekki með í þessari könnun. Það skal tekið fram að menntun þeirra sem sinna þjónustunni segir ekkert til um gæði hennar. Sem dæmi eru fjölskyldufræðingar sérhæfðir meðal annars einmitt í slíkum meðferðum. Það eru allir aðilar jafn hæfir til þess að sinna þjónustunni sé litið til menntunar þeirra einungis.
Niðurstöður
Hæsta verðið var hjá tveimur aðilum, Heilsuklasanum og hjá Parameðferð – sálfræðiþjónusta. Kostaði tíminn í parameðferð 19.000 krónur hjá þessum aðilum en sálfræðingar sinna þjónustunni á þessum stöðum. Lægsta verðið reyndist vera hjá Parameðferð – Hönd í hönd en þar kostar tíminn í parameðferð 15.000 krónur, þar sinnir fjölskyldufræðingur meðferðinni. Munurinn á milli hæsta og lægsta verðs er því 26,6 prósent.
Hér að neðan er tafla með öllum upplýsingum
Staður | Verð | Meðferðaraðili |
Parameðferð-sálfræðiþjónusta | 19000 | Sálfræðingur |
Parameðferð- Hönd í hönd | 15000 | Fjölskyldufræðingur |
Sálfræðistofa Reykjavíkur – Elsa | 17500 | Sálfræðingur |
Sálfræðistofan Höfðabakka – Elín | 15500 | Fjölskyldufræðingur |
Domus Mentis- Geðheilsustöð | 18500 | Fjölskyldufræðingur |
Sálfræðistofan Höfðabakka – Björg | 15500 | Fjölskyldufræðingur |
Sálfræðistofan Höfðabakka – Kristín | 16500 | Fjölskyldufræðingur |
Sálfræðistofan Höfðabakka – | 18000 | Sálfræðingur |
Heilsuklasinn | 19000 | Sálfræðingur |