Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og sérfræðingur í flugrekstri, ræddi framtíð ferðaþjónustunnar hér á landi í samtali við morgunútvarp Rásar 1 og 2 í morgun. Hann sagði algjöra óvissu ríkja.
„Maður veit ekkert. Maður hefur á tilfinningunni að enginn viti neitt,“ sagði Jón þegar hann er beðinn um að spá í framtíðina. Hann sagði stöðuna sem upp er komin vera eitthvað sem enginn gat séð fyrir. Hann lýsti henni sem „óraunverulegri“.
Mikið hefur verið fjallað um um hvort ríkið eigi að koma inn í myndina og aðstoða flugfélagið Icelandair í gegnum þá rekstrarerfiðleika sem félagið glímir við. Aðspurður hvað honum finnst sagði Jón: „Ég held að ríkið verði að koma einhvern veginn inn, í einhverju formi. En ég held líka að hluthafar þurfi að skoða hvort að þeir vilji koma inn og bjarga verðmætum.“ Hann sagði valkostina sem eru í boði vera „vondur, verri, verstur“.
„En ég held líka að hluthafar þurfi að skoða hvort að þeir vilji koma inn og bjarga verðmætum.“
Hann bætti við að það yrði sárt að sjá eignir lífeyrissjóða landsins í Icelandair hverfa.
Hann ssagði Icelandair hafa verið vel undirbúið og hafa átt fjármagn til að halda sér gangandi í ákveðinn tíma áður en faraldurinn skall á af fullum þunga. „Það er að hjálpa þeim í dag. En auðvitað klárast það [fjármagnið] einhvern tímann.“
Fullkomið tekjuleysi og algjör óvissa
Hann sagði stóru spurninguna vera hversu lengi ástandi varir. Hann telur mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtækin í landinu verði til staðar þegar ferðamenn fara að streyma aftur til landsins en benti á að enginn viti hvenær það verður.
Hvað framtíð Icelandair varðar sagði Jón: „Við getum alveg séð þá sviðsmynd fyrir okkur að fyrirtækið þurfi að lúta í lægra haldi. En þá verður afskaplega erfitt að fara aftur af stað.“
Jón sagði að nú sé bara að bíða og sjá hvenær landamæri opni aftur en að óvissan sé mikil. Staðan sé erfið á meðan beðið er og á sama tíma verða ferðaþjónustufyrirtæki fyrir „fullkomnu tekjuleysi“ að hans sögn.
Hann er þó vongóður um að ferðaþjónustan á Íslandi verði fljót að ná sér svo lengi sem ferðaþjónustufyrirtækin verði til staða þegar faraldurinn er genginn yfir. Hann sér fyrir sér að ferðamenn muni vilja koma hingað til lands þar sem fámennt og víðfeðmt land muni hljóma vel í eyrum fólks þegar það fari að bóka sér utanlandsferðir aftur.
„Ég trúi því að fólk verði orðið ferðaþyrst þegar þetta er yfirstaðið.“