Verjandi Angjelin Sterkaj í Rauðagerðismálinu, sem hefur einn játað sök, krefst þess í greinargerð til Héraðsdóms Reykjavíkur að Angjelin verði ekki dæmdur til refsingar fyrir morðið á Armando Beqiri – sem hann skaut níu sinnum.
Verjandinn segir að morðið hafi verið örþrifaráð föður; föður sem hafi verið hótað lífláti af mönnum sem lögregla telur að tengist skipulagðri glæpastarfsemi. Hótanir þeirra hafi beinst bæði að honum sem og syni hans.
Fréttastofa RÚV óskaði eftir þessum greinargerðum um leið og þær voru lagðar fram, en tafir urðu á því að verjendur samþykktu að þær yrðu afhentar, en dómari rak á eftir því í réttarhaldinu í vikunni og þær hafa nú borist RÚV.
Angjelin Sterkaj gaf skýrslu fyrir dómi síðasta mánudag og þótt skýrslutakan hafi staðið í nærri þrjár klukkustundir gefur greinargerðin skýrari mynd af vörn hans í þessu hræðilega máli.
Þar kemur meðal annars fram að Armando og félagi hans hafi hótað honum ef hann aðstoðaði þá ekki við að rukka Anton Kristin Þórarinsson, sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins, um tíu milljónir króna.
Anton gaf skýrslu fyrir héraðsdómi í vikunni og kannaðist ekki við að hafa átt í útistöðum við Armando og þaðan af síður að Armando og félagi hans hafi ætlað að innheimta skuld.
Anton hefur verið grunaður um að vera umsvifamikill í undirheimum og í byrjun árs var gögnum úr viðkvæmri lögreglurannsókn lekið á netið, sem bentu til þess að hann hefði verið upplýsingagjafi lögreglu.
Verjandi Angjelin segir í áðurnefndri greinargerð að skjólstæðingur hans hafi keypt sér byssu sem hann hafi hafi haft á sér öllum stundum.
Í greinargerðinni er síðan vitnað til ummæla Margeirs Sveinssonar á blaðamannafundi í mars þar sem hann var spurður hvort hann teldi að Armando tengdist skipulagðri glæpastarfsemi. Margeir sagði á fundinum að hann teldi svo vera en þegar hann kom fyrir héraðsdóm í vikunni neitaði hann að svara frekari spurningum um það mál til að vernda rannsóknarhagsmuni.
Engu að síður telur Verjandi Angjelin að gögn málsins styðji tengsl Armando við skipulögð glæpasamtök; nefnir að svört minnisbök hafi fundist á heimili hans, þar sem finna mátti skuldalista og þá séu til gögn um að hann hafi verið að selja fíkniefni.
Þá er í greinargerðinni vitnað til ummæla ekkju Armando um að hún hafi orðið vör við deilur milli hópa í dyravarðastarfsemi, en Armando rak dyravarðafyrirtæki.
Verjandinn segir Angjelin hafa þekkt hugsunargang Armando og samverkamanna hans sem hafi hótað að drepa hann og son hans. Því hafi hann talið þessa menn hættulega; að gögn málsins bentu til þess að þetta hafi ekki verið einhver vænisýki hjá honum.
Verjandinn segir að Angjelin hafi ætlað að leysa málin þegar hann fór til fundar við Armando laugardaginn 13. febrúar. Hann tók með sér byssu ef svo færi að hann þyrfti að verja sig.
Þegar þeir hittust hafi Armando rokið í átt að Angjelin með líflátshótunum og hann þá áttað sig á því endanlega að Armando myndi standa við hótanir sínar um að drepa hann og son hans. Angjelin hafi því ekki séð annan kost í stöðunni en að skjóta Armando.
Réttarmeinafræðingur sem gaf skýrslu fyrir dómi sagði að Angjelin hefði verið minnst metra frá Armando þegar hann skaut hann níu sinnum. Þá bendir margt til þess að Armando hafi verið skotinn í bakið.
Verjandinn undrast að ákæruvaldið hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum um að fá aðgang að þeim símagögnum sem lögreglan hafi lagt hald á hjá Armando og félögum. Þar gætu verið að finna vera upplýsingar sem geti varpað skýrara ljósi á aðdraganda þess að Armando var myrtur og hvers vegna Angjelin taldi sig þurfa að hitta Armando einan.
Því er sömuleiðis hafnað að aðrir sakborningar í málinu hafi getað vitað eða séð fyrir að Angjelin myndi fremja þann verknað sem hann er ákærður fyrir.
Í greinargerðinni er vikið að rannsókn lögreglunnar og það er meðal annars gagnrýnt að lögreglan skyldi aldrei hafa tekið mið af þeim möguleika að manndrápið kynni að hafa verið einhvers konar örþrifaráð manns sem stafaði ógn af Armando og þeim skipulögðu glæpasamtökum sem hann gæti hafa tengst.
Þá telur verjandinn vísbendingar um að lögreglan hafi ekki gætt hlutleysis við rannsókn málsins og neitun eða þögn ákæruvaldsins um að afhenda eða afla ýmissa gagna leiði til vafa um hvað hafi gerst á bak við tjöldin; einnig að túlkun í málinu hafi verið verulega ábótavant og hún sé á vissum stöðum hreinlega röng.