Verkfall blaðamanna á ruv.is, mbl.is, frettabladid.is og visir.is er hafið.
Verkfall blaða- og tökumanna og ljósmyndara sem starfa á netmiðlum Sýnar, RÚV, Fréttablaðsins og Morgunblaðsins hófst núna klukkan 10:00 og stendur yfir til klukkan 14:00. Þetta er fyrsta verkfall blaðamanna síðan 1978.
Samtök atvinnulífsins og Blaðamannafélag Íslands eru ekki sammála um framkvæmd verkfallsins en Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, sagði í samtali við Mannlíf í vikunni að ekkert ætti að fara inn á netið á þeim miðlum sem fara í verkfall á þessum tíma. „Það fer ekkert efni inn á netið á þessum miðlum á milli klukkan 10:00 og 14:00 á föstudaginn. Og tökumenn og ljósmyndarar fara ekki í tökur á þessi tímabili. Og þetta á líka við um verktaka,“ sagði Hjálmar.
Bæði Vísir og Fréttablaðið hafa birt fréttir á vef sínum þess efnis að blaðamenn séu farnir í verkfall. Enga tilkynningu er að finna á vef RÚV né mbl.is
Sjá einnig: „Það gerir það enginn að gamni sínu að fara í verkfall“