Haraldur Sumarliðason húsasmíðameistari var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun Samtaka iðnaðarins (SI) á sínum tíma en hann hafði lengi verið í forystusveit Landssambands iðnaðarmanna og forseti þess um árabil. Hann var kjörinn fyrsti formaður SI og gegndi því starfi í sex ár þar til hann lét af formennsku á Iðnþingi árið 2001.
Mannlíf ræddi við hann um stöðu mála í kjaraviðræðum eins og þær blasa við honum í dag og þó að hann segðist ekki fylgjast mikið með og væri dauðfeginn að vera hættur afskiptum af málaflokknum, þá liggur hann ekki á skoðunum sínum um deiluaðila. „Mér finnst hvorugur aðilinn standa sig vel. Ég held að ríkið verði að bjóða eitthvað betur en það hefur gert en að sama skapi þykja mér kröfur verkalýðsforystunnar heldur stórtækar. Ég held reyndar að það sé alveg rétt hjá þeim að þeir lægst launuðu þurfa almennilega launahækkun en verkalýðshreyfingunni hefur aldrei tekist að koma í veg fyrir að hækkanirnar gangi upp í gegnum allan skalann. Það er vandamálið,“ útskýrir Haraldur.
Hann segist skynja nýjan tón sem hann telur ekki til bóta. „Mér hugnast alls ekki svona skæruhernaður eins og er núna. Það er fáránlegt að fólk sé í verkfalli í ákveðnum verkum sínum en vinni önnur störf, eins við sjáum á hótelunum. Þetta er alveg út í hött, annaðhvort eru menn í verkfalli eða ekki. Ég veit ekki hvernig á að fara að því en það þarf að taka á svona rugli. Það er ekki hægt gera svona alvarlegan hlut eins og verkfall að einhverjum skrípalátum.“
Haraldur viðurkennir að það sé alltaf erfitt að nálgast svona viðræður og að því leyti hafi það ekkert breyst frá því sem áður var. „Ég held hins vegar að það verði að koma í veg fyrir að þetta sé gert með svona bjálfalegum hætti. Látum það vera að fólk fari í verkfall einn og einn dag til að byrja með en þegar farið er að kljúfa starfið sjálft niður, þetta tekur út yfir allan þjófabálk,“ segir hann og ítrekar að ríkið verði að koma að borðinu með markvissari hætti. „Ég held að ríkið verði að gera betur. Það eru að vísu sorglegar fréttir að loðnan sé að bregðast en áhættan hjá okkur um alvarleg verkföll sem hafa áhrif á t.d. ferðaþjónustuna er bara svo mikil. Það þarf að reyna koma með eitthvað á móti því tap okkar allra verður svo miklu alvarlega ef þetta fer út í einhverja svona vitleysu.“