Skemmdarverk hafa verið unnin á fjölmörgum verslunum í mótmælunum sem hafa brotist út víða um Bandaríkin í kjölfar dauða George Floyd. Brotnar rúður, tómar hillur og varningur á víð og dreif einkennir margar verslanir þar sem skemmdarverk hafa verið unnin.
Í umfjöllun New York Times um málið segir að skemmdarverkin geri illt geri illt verra þar sem margir verslunareigendur hafa barist í bökkum undanfarið vegna kórónuveirufaraldursins. Þrátt fyrir skemmdarverk hafa margir verslunareigendur sent frá sér stuðningsyfirlýsingu við mótmælendur.
Í yfirlýsingu frá Nordstrom segir að það sé lítið mál að laga þær skemmdir sem unnar hafa verið á útibúum keðjunnar og að nú þurfi stórkostlegar aðgerðir til að knýja fram breytingar hvað stöðu þeldökkra í Bandaríkjunum varðar.
Talsmaður Walmart sendi einnig út yfirlýsingu og sagði að nú þyrfti almenningur að standa saman í baráttunni gegn rasisma og óréttlætis.
Opnunartíma Target hefur verið breytt vegna mótmælanna. Í yfirlýsingu kom fram að unnið sé að viðgerðum þar sem skemmdir voru unnar í mótmælum en þá var einnig tekið fram að forsvarsmenn Target standa með mótmælendum.
Öllum Adidas verslunum í Bandaríkjunum var lokað um helgina og sömuleiðis nokkrum verslunum Nike og Apple vegna skemmdarverka. Talsmaður CVS greindi frá því að skemmdir hafa verið unnar á um 250 verslunum keðjunnar svo að nokkur dæmi séu tekin.