Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Verslunarstjórinn Thomas elskar lífið í Árneshreppi: „Covid hefur kennt fólki að meta fámenni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér líður alltaf vel í Árneshreppi. Þegar illviðri geysar að vetrinum líður mér frábærlega vel,“ segir Thomas Elguezabal, verslunarstjóri í Verzlunarfélags Árneshrepps, í viðtali við Mannlíf.

Hann býr allt árið í þessu hvað fámennasta sveitarfélagi á Íslandi og þjónar gestum og gangandi með nauðsynjar. Thomas nýtur vinsælda í samfélaginu enda annálaður fyrir þjónustulund. Það er við hæfi að ræða við Thomas, sem rekur eina minnstu matvörubúð landsins, á frídegi verslunarmanna.

Thomas hefur búið í Norðurfirði í nokkur ár. Hann er frá Pouillon Frakklandi en kom sem ferðamaður í Árneshrepp og kolféll fyrir staðnum. Hann starfaði um tíma á veitingastaðnum Kaffi Norðurfirði. Nokkru eftir að Verzlunarfélagið var stofnað úr rústum Kaupfélags Steingrímsfjarðar var Thomas ráðinn sem verslunarstjóri. Hann stendur vaktina allan ársins hring og leiðist ekki eitt andartak. Yfir harðasta veturinn búa aðeins um 15 manns í sveitarfélaginu þótt 40 manns hafi skráð þar lögheimili sitt. Þá er vegurinn suður gjarnan lokaður langtímum saman og ófært öllum nema fuglinum fljúgandi. Þá líður Thomasi best og hann sekkur sér ofan í störf sín og nýtur þess að vera í fámennu og góðmennu samfélagi.

„Hér sameinast fallegt landslag og mjög gott fólk“

„Hér sameinast fallegt landslag og mjög gott fólk. Þetta gefur mér ljúft líf með frábæru fólki á stórkostlegum stað, laus amstur heimsins. Á veturna drekk ég kaffi með vinum mínum og spila. Þá starfa ég sem grafískur hönnuður og vinn við það í tölvunni minni. Þá skiptir engu máli hvar ég er í heiminum,“ segir Thomas.

Hann segir að Covid hafi opnað augu fólks fyrir kostum þess að búa í fámenni fremur í iðandi mannhafi stórborga.

„Covid hefur kennt fólki að meta fámennið. Lífið í miðju stórborga er ekki góður kostur. Hér hef ég allt sem þarf,“ segir hann.

- Auglýsing -

Thomas dvelur mestallt árið í Árneshreppi. Sumarfríið í ár notaði hann til þess að fara í enn meira fámenni. Þá setti hann nauðsynjar í bakpoka og hélt inn í óbyggðir og tjaldaði í Drangavík. Thomas er ekkert á förum þótt byggðinni hnigni stöðugt og straumurinn liggi í burtu.

„Ég vonast til þess að búa hérna næstu árin. Ég bíð eftir vetrinum og óveðrinu. Það er hluti af því að búa í svo stórkostlegri náttúru. Það eru engir ókostir við að búa hérna þótt það mætti vera örlítið fleira fólk,“ segir hann.

 

- Auglýsing -

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -