Donald Trump Bandaríkjaforseti segir kórónaveirufaraldurinn vera verstu árás sem gerð hefur verið á Bandaríkin. Hann heldur áfram að skella skuldinni á Kína.
Trump sagði kórónaveirufaraldurinn verri en hryðjuverkaárásin sem gerð var á tvíburaturnana í New York 11. september árið 2001 og verri en árásin á Pearl Harbour, flotastöð Bandaríkjahers í seinni heimsstyrjöldinni.
Þetta sagði forsetinn á upplýsingafundi Hvíta hússins í nótt og bætti við að Kína hefði getað haldið betur á spilunum þegar kórónaveiran sem veldur COVID-19 fór fyrst að greinast í Kína.
„Þetta hefði aldrei átt að gerast,“ sagði Trump og bætti við að það hefði verið hægt að stoppa útbreiðsluna þar sem hún kom fyrst upp. Trump hefur þá áður greint frá því að hann hafi séð sönnunargögn sem sýna fram á að veiran kom upphaflega úr rannsóknarstofu í borginni Wuhan í Kína, hann stendur áfram við þau ummæli sín.
Nú hafa ríflega 73 þúsund látist í Bandaríkjunum af völdum veirunnar. Eftir því sem veiran hefur náð meiri útbreiðslu og dregið fleiri til dauða í Bandaríkjunum hefur tónninn í Trump breyst en hann hefur verið sakaður um að taka veiruna ekki nógu alvarlega í upphafi.