Íbúar í Vesturbæ Reykjavíkur kvarta sáran undan þríhjóla póstburðarhjólum sem bruna um göngustíga hverfisins. Þeir líkja ástandinu við Villta vestrið þar sem gangandi vegfarendur séu í stórhættu vegna glannaaksturs póstburðarfólks.
Hávær umræða er um póstburðarhjólin í hverfisgrúbbu Vesturbæjar á Facebook. Til umræðunnar stofnaði Anna Björk Hjörvar sem lenti í stórhættu með ungri dóttur sinni. „Jæja…. er bara allt í lagi að 3ja hjóla “pósthjól” (hjól frá póstinum, með vel búnum ökumanni) eða hvað það er sem þetta á að kalla, fái bara að keyra á, göngustígum, gangstéttum OG stoðbrautum??? Ég var að ganga heim með 6.ára dóttur minni. Við vorum þarna rétt eftir klukkan 16:00 (lok skóladags) þegar mörg börn og fullorðnir eru þarna á ferð. Hún rétt slapp undan þríhjóli frá póstinum sem ók mjög hratt. Svo kom annað strax á eftir. Á álíka hraða, sem ekki á að mínu mati að viðgangast á göngustígum. Eða hvað???? Er ég að missa af einhverjum reglugerðum og ég að fara keyra og sækja hér eftir????? Í Borginni sem vill mig á reiðhjól. Mömmunni, mér varð svo mikið um að ég náði ekki mynd,“ segir Anna.
Hrafnhildur Eiðsdóttir hefur svipaða sögu að segja. „Við lentum í þessu líka þarna á sama stað um daginn, minn strákur var á hjóli, rétt slapp við pósthjólið þarna í beygjunni, einmitt um kl. 16. Pósturinn er með einhvern bílskúr í blokkunum þarna nálægt þar sem hjólin eru geymd og þangað fór þessi ökumaður sem ég sonur minn vorum sammála um að væri frekar ökuníðingur,“ segir Hrafnhildur.