Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Vesturbærinn fyrsta réttindahverfi landsins á Alþjóðadegi barna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í tilefni af alþjóðadegi barna og 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna veitti UNICEF á Íslandi grunnskólunum í vesturbæ Reykjavíkur, Grandaskóla, Melaskóla, Hagaskóla og Vesturbæjarskóla, frístundaheimilunum Undraland, Selið, Frostheimar og Skýjaborgir auk félagsmiðstöðvarinnar Frosti viðurkenningu í dag sem Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF.

 

Með þessu er Vesturbær Reykjavíkur nú orðið fyrsta réttindahverfi landsins þar sem allir skólar þess hafa nú hlotið þessar viðurkenningar.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að óhætt sé að fullyrða að um merkisatburð í menntamálum Reykjavíkurborgar sé að ræða en í ofangreindum skólum hafa öll börn, kennarar, starfsfólk og foreldrar unnið markvisst og af miklum eldmóð við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í sitt starf. Réttindaráð skólanna hafa hlotið mikið lof fyrir vinnu sína í þágu réttinda barna. Réttindaráð Hagaskóla braut til að mynda blað í sögu íslensks skólastarfs þegar þau stóðu öll sem eitt og mótmæltu fyrirhugaðri brottvísun skólasystur sinnar úr landi. Þau mótmæli urðu til þess að brottvísuninni var frestað.

Viðurkenningin er nú veitt í annað sinn, á 30 ára afmæli Barnasáttmálans. Fyrir höfðu Laugarnesskóli, Frístundaheimilin Laugasel og Dalheimar, Laugalækjarskóli og félagsmiðstöðin Laugó, Flataskóli og frístundaheimilið Krakkakot innleitt Barnasáttmálann í allt starf sitt og verið viðurkennd sem Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, fagnar með réttindaráði Hagaskóla.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir gleðiefni að geta veitt viðurkenningarnar á afmælisdegi sáttmálans og að baki liggi þrotlaus vinna allra sem komi að.

„Þessi útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims hefur breytt lífum ótal barna til hins betra. Nú eru forsendur hans orðnar útgangspunktur allra ákvarðana í metnaðarfullu skóla- og frístundastarfi þessara skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvar. Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF hjálpa okkur við að tryggja skuldbindingu okkar og komandi kynslóða fyrir áframhaldandi baráttu fyrir réttindum barna. Nærumhverfi barna eins og hér um ræðir er frjóasti svörðurinn fyrir þeirri réttindabaráttu.“

- Auglýsing -
Dagur B. Eggertsson flytur ávarp í Grandaskóla

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var viðstaddur allar afhendingarnar  í morgun og kvaðst stoltur borgarstjóri á þessum tímamótum.

„Ég er ótrúlega stoltur af því að skólarrnir og frístundastarfsemin í Vesturbænum séu að verða réttindaskólar og réttindafrístund UNICEF. Því það er ekki bara mikilvægt að krakkarnir átti sig á því að þeir hafi réttindi heldur að þau eru svo virkir þátttakendur í verkefnunum. Þannig styður þetta við áherslur á spennandi, lýðræðislegt skólastarf þar sem að einstaklingurinn er í forgrunni en þar sem líka er lögð áhersla á að taka tillit til skoðana annarra og við séum öll samfélag. Barnasáttmálinn rammar þetta mjög vel inn og Réttindaskólaverkefnið í heild sinni. Ég er bara mjög þakklátur og stoltur borgarstjóri í dag.“

Réttindaskólar Vesturbæjar

Hvað eru réttindaskólar?

- Auglýsing -

Réttindaskóli og Réttindafrístund er hugmyndafræði fyrir skóla- og frístundastarf sem byggir á Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og miðar að því að auka virðingu, vernd og innleiðingu mannréttinda. Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem vinna eftir líkaninu leggja sáttmálann til grundvallar í öllu starfi sínu; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum.

Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Meira um Réttindaskóla og Réttindafrístund í myndbandinu hér fyrir neðan.

Þeirra eigin orð: Þetta segja börnin

Alþjóðadagur barna snýst ekki síst um að gefa börnum orðið. UNICEF á Íslandi fékk send nokkur svör barna eins Réttindaskólanna við spurninginunni hvort það skipti máli að læra um réttindi sín og af hverju. Það stóð ekki á svörum hjá börnunum og hér fyrir neðan má lesa nokkur vel valin. Við gefum börnum orðið:

„Það er í einum réttindunum að börn eigi að vita um réttindi sín. Mér finnst bara gott að vita um réttindi mín. Allir eiga skilið að vita um réttindi sín.“ – Barn í 6. bekk

„Ég myndi segja það. Auðvitað er mikilvægt fyrir alla að læra um réttindi. Það er ósanngjarnt ef maður fær ekki réttindi sín því það eru lög og þetta eru ein af mikilvægustu lögunum að fylgja því hvað gerist í framtíðinni ef þú ert ekki hamingjusamur sem barn og það er passað upp á þig.“ – Barn í 6. bekk.

„Af því að það er gott að vita hvaða réttindi maður hefur og ef maður þekkir ekki réttindi sín getur maður ekki virt réttindi annarra!“ – Barn í 6. bekk.

„Ég vil vita hvaða réttindi ég á svo að ég geti sagt frá ef einhver brýtur á réttindum mínum.“ – Barn í 6. bekk.

„Það er mikilvægt að gefa börnum að drekka og borða.“ – Barn í 1. bekk.

„Þegar það er rigning þá eiga börn að fá hlý föt og pollagalla.“ – Barn í 1. bekk.

„Það er mikilvægt að eiga hús og foreldra.“ – Barn í 1. bekk.

„Þá veit maður að maður á að eiga þak yfir höfuðið.“ – Barn í 2. bekk.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -