Yfirlýsing Bjarna Benediktssonar sem utanríkisráðherra þess efnis að frysta framlög til Flóttamannaaðstoðarinnar í Palestínu (UNRWA) var fordæmd af flokksráðsfundi VG er haldinn var í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í gær.

Ein af ályktunum er þar voru samþykktar snúa beint að málefnum Palestínu sem og stríðinu á Gaza, en þetta kom fram á RÚV.
Í áðurnefndri ályktun eru aðgerðir Ísraels á Gaza fordæmdar og kallað er eftir friði; varanlegum friði.

Ljósmynd: Reuters
VG segir aðgerðir vestrænna ríkja hafa verið algjörlega skammarlegar; að allar tilraunir Sameinuðu þjóðanna til að koma á friði á svæðinu hafi stjórnvöld í Bandaríkjunum með aðgerðum sínum að engu gert.
Einnig segir að Ísraelsstjórn hafi ráðist í ófrægingarherferð gegn Sameinuðu þjóðunum sem og Flóttamannaaðstoðinni eftir úrskurð Alþjóðadómstólsins í Haag í janúar á þessu ári.
Í úrskurðinum kom það fram að líklega væri Ísrael nú og hafi í einhvern tíma verið að fremja þjóðarmorð í Palestínu.

Fundur VG fordæmir ákvörðun forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, er hann tók í utanríkisráðherratíð sinni.
Í áðunefndri ályktun segir þetta:
„Flokksráðsfundur fordæmir ákvörðun þáverandi utanríkisráðherra að styðja atlögu Ísraelsríkis að mannúðaraðstoð á Gaza með yfirlýsingu um að frysta fjárframlög til Flóttamannaaðstoðarinnar.“
Kemur fram að ákvörðun um frystingu var tekin í janúar; eftir að fréttir bárust af því að fremur lítill hópur starfsmanna Flóttamannaaðstoðarinnar væri sakaður um að hafa hjálpað Hamas-samtökunum í árás þeirra á Ísrael þann sjöunda október síðastliðinn.
Greiðslum var framhaldið í mars og nú í sumar var tilkynnt um viðbótarframlag til stofnunarinnar og þessu fagna flokksmenn VG ákaflega í ályktun sinni.