Þriðjudagur 24. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Gísli upplifði sig aldrei einan á sjó: „Ég var í töluverða stund að jafna mig eftir þetta atvik“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjómennskan var aðalstarf Gísla Gíslasonar í áratugi. Hann hefur upplifað ýmislegt á hafi úti sem mætti kannski tengja við annan heim. Heiminn að handan. Eitthvað óútskýranlegt.

Hann ólst upp á Akranesi. Fjaran heillaði. Var leikvöllurinn. Einn af þeim.

„Ég var að sulla og vaða og veiða síli. Þegar maður varð aðeins eldri þá fengum við að veiða á bryggjunni. Það var okkar líf og yndi. Svo var spennandi að vera í kringum trillukarlana þegar þeir voru að koma í land. Ég fór sem smápolli niður á bryggju að sníkja í soðið og það var nú ekki leiðinlegt að draga steinbít heim til ömmu sem steikti hann með lauk og var með kartöflur og brúna sósu með. Það var ekki dónalegt.

Þetta laðaði mig bara einhvern veginn að sér. Það er eitthvað við sjóinn sem kallar. Ég veit ekki hvað það er en ég finn ofboðslega mikinn frið við sjóinn og í fjörunni. Þetta er mjög gefandi. Maður fyllist bara vellíðan. Það er einhver hreinleiki í náttúrunni; þetta er svipað og að fara til fjalla. Það gerist það sama þar. Fólk finnur bara frið.“

Einveran

Gísli byrjaði að læra rafvirkjun en sjórinn lokkaði enn og laðaði. Honum bauðst að gerast háseti á Sigurborginni og þáði það boð og fór á netaveiðar. Og hann var á sjónum í tæp 30 ár.

- Auglýsing -

Þegar kaflanum á netabátnum lauk fór hann á trillu með föður sínum, Loga Jóhannssyni. Flatey kallaðist trillan og þeir feðgar reru saman í nokkur ár. „Svo ákvað ég að fara á togara og varð háseti og var þar í nokkur ár og svo byrjaði ég með eigin útgerð; fyrst á handfæri og svo á línu. Það var mjög gaman.“

Hvað er eftirminnilegast? „Ég hef lent í því að það hefur drepist á vél undir bjargi en við vorum sóttir og vorum aldrei í neinni hættu af því að hjálpin barst. Ég var síðan einn á trillu í mörg ár í alls konar veðri og ég hef aldrei fundið fyrir beyg fyrir utan í eitt skipti. Það var þannig að ég var á lítilli trillu sem var um tvö tonn og var að koma af handfæraveiðum og sat í stýrishúsinu í rólegheitunum og var að reykja mína pípu þegar mér var litið út um gluggann. Þá horfði ég í augun á háhyrningi sem var að stökkva upp úr sjónum. Það lá við að ég skiti í buxurnar en háhyrningnum brá jafnmikið og mér og fór gjörsamlega í kuðung og fór undir bátinn. Þetta er í eina skiptið sem mér hefur brugðið svona mikið og ég var í töluverða stund að jafna mig eftir þetta atvik.“

Gísli er spurður hvað hafið sé í huga hans. „Frelsi. Það fylgir því mjög hentugur vinnutími að vera á sjó en gallinn er að maður er lengi í burtu. En þegar maður er heima þá er maður heima.“

- Auglýsing -

Hann talar um dýralífið. Fuglalífið. „Þetta voru vinirnir. Þegar maður var á handfærum þá voru þeir allt í kringum bátinn og biðu eftir lifrarbita. Eins var það á línunni en þá eltu þeir bátinn og tíndu beituna sem datt í sjóinn. Það er alltaf mikið dýralíf í kringum mann þegar maður er á sjó þannig að maður er svo sem aldrei einn. Ég upplifði það ekki þannig og einhverju sinni ákvað ég að fara á grásleppu og þá komst ég að því hvað ég var vanur einverunni.

Það var maður sem ákvað að fara með mér á grásleppu og tveimur dögum seinna ákváðum við að fara aftur til að draga grásleppunetin. Þegar við höfðum gert það frá því um klukkan sjö um morguninn og fram undir þrjú þá varð maðurinn allt í einu öskureiður, kastaði netateinunum á borðið og hálföskraði: „Þú talar aldrei neitt, maður.“ Það var þá sem ég uppgötvaði að ég var svo vanur að vera einn með sjálfum mér; mannleg samskipti voru eitthvað sem þurfti ekki að hafa nema bara einstaka sinnum í gegnum talstöðina. Sjálfum sér nógur er maður alveg.“

Gísli Gíslason

Nærveran

Einn eða ekki einn.

„Við erum aldrei ein úti á sjó. Og þó við sjáum ekki berum augum þá sem með okkur eru þá er alltaf einhver. Ég get ekki sagt að ég hafi séð neitt en ég hef einhvern veginn fundið fyrir nærveru. Maður hefur séð eitthvað skjótast út undan sér og það er enginn þegar maður lítur við,“ segir Gísli sem hefur þá verið einn um borð. „Þannig að ég held að það sé alltaf einhver með okkur öllum stundum sem lítur til með okkur. Ég get sagt þér sögu af því.

Það var þannig að þegar við pabbi vorum með fyrsta bátinn okkar, Flateyna, þá vorum við einhverju sinni að gera netin klár og lágum undir stórum netabáti. Allt í einu rak maður höfuðið út um kýraugað á bátnum og sagði við okkur: „Þið eruð ekki bara tveir á þessum bát.“ Svo skellti hann aftur kýrauganu og ég sá hann ekki meira. Pabbi þekkti þennan mann og sagðist hafa heyrt að hann væri skyggn. Svo var þetta ekkert rætt meira.

Við fórum stuttu síðar að leggja grásleppunet vestur á Mýrum. Það var blankalogn og það hreyfði ekki vind. Pabbi var inni á stíminu og ég var aftur á að gera klárt. Ég var með á netaborðinu bauju sem átti að fara á næstu trossu. Og allt í einu datt baujan í hafið sem er með ólíkindum vegna þess að báturinn hreyfðist ekki og það var blankalogn. Ég skildi ekkert í þessu.

Þegar ég sá baujuna rúlla út af borðinu og út fyrir lunnungina og detta í hafið þá gargaði ég á pabba: „Snúðu, snúðu, baujan datt í hafið.“ Akkúrat þegar hann sneri stýrinu beygði báturinn fram hjá gömlu netatrolli sem var á floti. Ef við hefðum ekki misst baujuna í sjóinn þá hefði báturinn farið beint í þetta og við fengið í skrúfuna. Þetta hefði getað eyðilagt gírinn af því að við vorum á fullri ferð. Þannig að ég vil meina að þessi sem var með okkur hafi ýtt baujunni í sjóinn.“

Taumurinn slitnaði

Gísli talar um að hann hafi almennt farið til veiða samkvæmt eigin tilfinningu að morgni og valið það svæði sem hann ætlaði að veiða á en í þau skipti sem hann hafði skipt um skoðun og ákveðið að fara annað hafi veiðin verið dræm.

„Ég var einhverju sinni á leiðinni á miðin og einn af félögum mínum var á svipuðu róli og hringdi í mig og sagði að það hafi verið svakalega mikið fiskerí í Flákakantinum og spurði hvort ég vildi ekki koma með og fara í Flákakantinn og við gætum bara lagt hlið við hlið í von um góðan dag. Ég sagðist ekki vilja það þar sem ég væri búinn að ákveða að fara suður fyrir á Bervíkina og leggja þar. Ég var alveg harður á því. En þegar ég byrjaði að leggja og allan tímann á meðan ég var að leggja balana sem voru 32 þá lóðaði ekki neitt og þar af leiðandi ekki neitt útlit fyrir fisk. En þrátt fyrir það varð ég að standa með mínum ákvörðunum og klára að leggja. Síminn hringdi þegar ég var búinn að draga og þá var það þessi félagi minn sem sagði að þetta hafi verið hálfgerð Bjarmalandsför hjá sér. Hann hafði fengið tvö og hálft tonn en ég var með 32 bala og 13 tonn. Þannig að ef ég hefði ekki hlustað á sjálfan mig þá hefði ég fengið lítinn fisk þann daginn. Þannig að það er ákveðið traust sem maður hefur á svona.“

Gísli talar um eitt undarlegt atvik í viðbót sem hann segist ekki geta útskýrt. „Ég fór út á Baulurif, sem er út af Akranesi, á milli lægða. Við vorum ekki með marga bala og ég vissi að það var að koma snarvitlaust veður. Ég lagði balana og svo byrjuðum við fljótlega að draga. Við urðum að hafa hraðar hendur til að draga og komast heim áður en veðrið skylli lá. Og ég dró frekar hratt. Ég teygði fram aðra hendina sem ég notaði til þess að stjórna spilinu og í því fór krókur á kaf í hendina og ég gat ekki stoppað spilið og hendin dróst að því. Svo heyrðist smellur og slitnaði taumurinn áður en hann fór í slítarann. Þannig að ég get ekki útskýrt þetta en þetta gerðist og ég held að einhver hafi lagt mér lið. Þetta var mjög skrýtið af því að ef ég hefði farið í spilið þá hefði farið mjög illa með hendina á mér.“

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -