Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

„Við erum enn í sárum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kvikmyndin Utoya 22. juli, sem byggir á frásögnum eftirlifenda voðaverkanna í Útey, verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Aðalleikkonan vonar að myndin verði til þess að atburðirnir gleymist aldrei.

Andrea Berntzen fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld. Mynd / Agnete Brun

Í ár eru sjö ár liðin frá voðaverkunum í Ósló og Útey þegar 77 manns féllu fyrir hendi fjöldamorðingjans og hægri öfgamannsins Anders Breivik, átta í sprengjuárás í stjórnarráðs-hverfinu í Ósló og 69 í skotárás í Útey, þar sem aðalskotmark Breiviks voru sumarbúðir ungra jafnaðarmanna. Í kvikmyndinni Utoya 22. juli eru þessir skelfilegu atburðir rifjaðir upp með augum unglingsstúlkunnar Kaju sem berst fyrir lífi sínu á eynni um leið og hún reynir að bjarga yngri systur sinni. Mannlíf spjallaði við Andreu Berntzen sem fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld.

Utoya 22. juli er fyrsta kvikmyndin sem þú leikur í, hvernig var að taka að sér svona krefjandi fyrsta verkefni? „Sko, þetta er svolítið flókin spurning, því þar sem þetta er einmitt fyrsta myndin sem ég leik í þá fannst mér það spennandi. En út af umfjöllunarefninu var þetta mjög erfitt líka og óhugnanlegt að átta sig á því að ég er núna á svipuðum aldri og krakkarnir voru sem urðu fyrir árásinni. Ég var auðvitað svo ung þegar atburðurnir áttu sér stað, bara 12 eða 13 ára.“

„Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk.“

Manstu vel eftir þeim? „Já, við fjölskyldan vorum að keyra heim úr sumarhúsinu okkar þegar greint var frá sprengjuárásinni í útvarpsfréttum. Ég lagði vel við hlustir þar sem ég kannaðist við staðinn þar sem sprengingin varð. Næsta dag kom í ljós að sami maður bar ábyrgð á morðunum í Útey. Ég var mjög hrædd lengi vel eftir þetta, til dæmis við að vera ein á ferli. Samt er skrítið að segja frá því að þótt ég væri nógu gömul til að átta mig á hvað hafði gerst var það eiginlega ekki fyrr en ég lék í myndinni sem ég virkilega skildi hvað þessir atburðir eru skelfilegir. Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk. Við erum enn í sárum.“

Var tvístígandi við að leika í myndinni
Kvikmyndin byggir á frásögnum eftirlifenda í Útey og Andrea viðurkennir að vegna umfjöllunarefnisins hafi hún verið tvístígandi gagnvart því að taka að sér hlutverkið. Meðal annars af ótta við hvernig unnið yrði úr því og hvaða áhrif það hefði á eftirlifendur og aðstandendur. „Þegar ég fór í áheyrnarprufur vissi ég reyndar ekki um hvað verkefnið snerist. Það var ekki fyrr en í þriðju prufunni sem ég fékk að vita það og þá varð ég smeyk; verulega efins um að ég vildi leika í mynd sem snerist um voðaverkin í Útey. En þegar leikstjórinn sendi mér skilaboð þar sem hann útskýrði að hún kæmi til með að einblína á fórnarlömbin en ekki ódæðismanninn þá snerist mér hugur. Mér fannst sú nálgun einhvern veginn vera rétt til að segja þessa sögu.“

Myndin var að mestu leyti tekin í einni töku og að sögn Andreu voru flestir leikararnir tiltölulega óreyndir. Við komum því aftur að spurningunni í byrjun, það er að segja hvort verkefnið hafi ekki reynt á? „Jú, við vorum heila tvo mánuði að æfa og þar sem ég er ekki menntuð leikkona gat ég til dæmis ekki beitt þeirri tækni sem lærður leikari býr yfir og hefði getað nýtt sér til að nálgast hlutverk Kaju. Þess í stað reyndi ég að setja mig í hennar spor og ímynda mér hvernig ég brygðist við ef alvöruárás yrði gerð. Sumt í tökunum var reyndar óhugnanlega raunverulegt, þótt það sé auðvitað ekkert í líkingu við það sem gerðist í alvörunni.“

Andrea segist einmitt vona að myndin eigi eftir að fá áhorfendur til að skilja betur hvaða helvíti raunverulegu fórnarlömbin upplifðu á Útey og sýni þeim í kjölfarið meiri skilning og samúð en hefur verið gert síðustu ár. „Það eru fórnarlömb sem eru enn að díla við áfallastreituröskun eftir þetta. Krakkar sem er verið að segja við að þau verði að fara að herða sig og lifa eðlilegu lífi, sem er ótrúlega grimmdarlegt að segja. Ég vona að myndin breyti því. Að hún opni augu fólks og verði komandi kynslóðum áminning um það sem gerðist, rétt eins og seinniheimstyrjaldarmyndir veita okkur innsýn í hroðalega hluti. Atburðirnir í Útey mega alls ekki gleymast.“

- Auglýsing -

Mynd / Ole Garbo

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -