Dúndurfréttir munu flytja lögin af Abbey Road, plötu Bítlana, í heild sinni á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu föstudag 27. september, en þann 26. september eru 50 ár liðin frá því að þetta meistaraverk Bítlanna leit dagsins ljós.
Dúndurfréttamenn eru allir sannir Bítlaaðdáendur og sönnuðu enn og aftur snilli sína þegar þeir tóku nokkur lög Bítlanna fyrir troðfullu húsi í Eldborg árið 2017 á Classic Rock tónleikum þeirra.
„Abbey Road var í raun síðasta plata Bítlanna. Let It Be kom út seinna en upptökum á þeirri plötu var lokið áður en vinnan hófst við Abbey Road,“ segir Pétur Örn Guðmundsson. Abbey Road fór rakleiðis á toppinn í flestum löndum heims og var til dæmis í 17 vikur í efsta sætinu í Bretlandi. Platan hefur nú selst í yfir 30 milljónum eintaka og er enn að seljast gríðarvel.
Það verður því enginn sannur Bítlaaðdáandi svikinn af að mæta í Eldborg föstudaginn 27. september þar sem andi Bítlanna mun svífa yfir.
„Við höfum allir verið, eins og þorri jarðarbúa, miklir Bítlaaðdáendur og höfum drukkið þessa tónlist í okkur frá blautu barnsbeini,“ segir Pétur Örn. „Þegar tónleikahaldarinn okkar hann Guðbjartur stakk upp á því að við spiluðum þessa plötu á 50 ára afmæli hennar þá hugsuðum við okkur um í 14,5 sekúndur og sögðum svo allir í kór: „Auðvitað!“ Þessi plata er líka það allra síðasta sem sveitin tók upp áður en hún lagði upp laupana.“
„Alltaf best að lesa salinn hverju sinni“
Tónleikunum verður skipt í tvennt að sögn Péturs Arnars. „Fyrri hluti tónleikanna verða valin Bítlalög leikin sem við höfum sérstakt dálæti á og eins og gefur að skilja er erfitt að velja lög úr þeim gríðarstóra lagabálki sem liggur eftir sveitina. Svo verða lögin af Abbey Road-plötunni spiluð í heild sinni eftir hlé í seinni hluta tónleikanna.“
„Á æfingum fyrir tónleikana höfum við haft mikið dálæti á lagi George Harrison, Something.“
„Við höfum alltaf haft að leiðarljósi að vera með létta stemningu og alls ekki niðurnjörvað spjall á milli laga. Okkur finnst best að lesa salinn eins og það er kallað og spjalla við áhorfendur eins og stemning leyfir. En þetta verða mörg lög og því ekki tilgangurinn að kjafta mikið á tónleikum þar sem fólk er komið til að hlusta á Bítlalögin fögur. En eflaust fær einn og einn fróðleiksmoli að fljóta með. Platan verður þó flutt án þess að gjamma á milli laga.“
Haraldur Vignir Sveinbjörnsson og Helgi Reynir Jónsson verða Dúndurfréttum til aðstoðar við að gera hljóðheiminn sem mest sannfærandi og lögunum sem best möguleg skil.
En hvaða Bítlalög skyldu vera í uppáhalds hjá þeim sjálfum? „Það er erfitt að gera upp á milli laganna á þessari plötu, en á æfingum fyrir tónleikana höfum við haft mikið dálæti á lagi George Harrison, Something og svo allri lokasyrpunni hans Paul McCartney sem lýkur plötunni svo eftirminnilega. En eins og áður sagði er erfitt að finna eitthvert eitt lag frekar en annað því platan er svo fjölbreytt.“
Miðasala á tónleikana fer fram á Tix.is og Harpa.is