Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, varð á dögunum fyrst íslenskra biskupa til að heimsækja mosku á Íslandi. Hún segir andúð gegn innflytjendum og hælisleitendum byggjast á hræðslu og að Ísland þurfi að leggja meira af mörkum í málefnum flóttamanna. Meðal annars þurfi stjórnvöld að hætta að senda fólk út í óvissuna.
„Það var gaman að koma þarna og einstaklega vel tekið á móti okkur og ýmislegt sem kom mér kannski á óvart. Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt, til dæmis fengum við te og arabískar kökur sem maður fær ekki á hverjum degi,“ segir Agnes um móttökurnar sem hún fékk í Skógarhlíð í forsíðuviðtali við Mannlíf sem kemur út á morgun.
Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við
Í viðtalinu ræðir Agnes þá stöðu flóttafólks á Íslandi. „Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann? Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við?“
Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni í Mannlífi sem kemur út á morgun.
Mynd / Hallur Karlsson