Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

„Við skulum gera eins og Jósef og María; opna dyrnar fyrir ókunnugum, hleypa að okkur nýjum upplýsingum, taka af skarið og bjarga barninu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Saga jólanna er saga af fæðingu barns þar sem vonin og angistin vega salt. Hvers konar Guð er það sem kemur blóðugur og grátandi úr móðurkviði og er lagður á brjóst? Hvað segir það um þann Guð sem við megum trúa á í Jesú? Getur það táknað að við séum hér til þess að hjálpa Guði og taka þátt í verki hans? Getur það táknað að Guð búi í öllu; hverri mannssál, hverri lifandi skepnu, hverri jurt? Ég held það. Ég trúi því að sagan af barninu í Betlehem tjái að Guð sé alls staðar nálægur – allt að ysta rykkorni alheimsins – og að þess vegna megi alltaf við góðu búast,“

 

segir Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðabæ, í pistli í Mannlíf.

Bætir Jóna Hrönn við að vonlausar manneskjur hefðu ekki hleypt ókunnum fjárhirðum að jötunni og enn síður tekið við vegmóðum útlendingum sem báru með sér gjafir og visku. Bölsýnt fólk hefði ekki hlýtt á skilaboð æðri máttar í draumi og haft kjark til að rífa sig upp og gerast flóttamenn í Egyptalandi þar til einræðisherrann var allur eins og María og Jósef. Vonin gefur kjark og opnar á nýja möguleika.

Var minnt á hve brothætt gæfan er

„Ég heyrði þessa frábæru setningu fyrir nokkru: „Hver einasta barnsfæðing eru skilaboð frá Guði að hann hafi ekki gefist upp á mannkyni.“ Þessi orð koma oft upp í huga mér þegar ég held á nýfæddu barni á skírnarstundu og allt húsið ilmar af ungbarninu,“ segir Jóna Hrönn.

„Fæðing barns í heiminn er óendanlega stór gjöf. Með hverju barni fæðist ný von í veröldina en líka ný angist. Um daginn var litli ömmustrákurinn minn fluttur með hraði á sjúkrahús. Skamma stund var líkt og veröldin stöðvaðist. Angistin kramdi vonina í hjartanu. Allt fór vel að lokum, en við vorum óþyrmilega minnt á hve brothætt gæfan er.“

- Auglýsing -

Jóna Hrönn segir að það sé fallegt hvernig Lúkasarguðspjall segi frá Jesú þegar fjölskyldan var komin aftur heim til Nasaret: „Sveinninn óx og styrktist fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.“

„Er það ekki þetta sem við þráum fyrir hönd barnanna okkar? Að þau vaxi, styrkist, vitkist og njóti verndar svo að þau verði farsælar manneskjur. Til að svo megi verða þarf margt að hjálpast að. Börn eru háð umhverfi sínu og þurfa margvíslegan stuðning,“ segir Jóna Hrönn.

„Í hverju barni er Guð að biðja um hjálp og bjóða okkur hlutdeild í guðlegu eðli. Í hverju barni er Guð að játa ást sína á heiminum. Þegar þú horfir í augu barns horfist þú í augu við ókomna framtíð, sem verður að mega treysta því að vera ekki rænt voninni. Nú vitum við að ef við breytum ekki neysluháttum okkar strax verður framtíð barna okkar þyrnum stráð af okkar völdum. Við skulum gera eins og Jósef og María; opna dyrnar fyrir ókunnugum, hleypa að okkur nýjum upplýsingum, taka af skarið og bjarga barninu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -