Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að bólusetningar verði gerðar að skilyrði við inntöku í leikskóla Reykjavíkur. Ástæða þess er að mislingatilfellum hefur fjölgað í Evrópu á árinu, en 37 manns létust af völdum sjúkdómsins fyrstu sex mánuði ársins. Samkvæmt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni er bólusetning á Íslandi ófullnægjandi, en hann leggst þó gegn þessari hugmynd Hildar.
Hildur vill sem sagt banna börnum sem ekki eru bólusett að fá inngöngu í leikskóla í höfuðborginni, nema um sérstakar undanþágur sé að ræða. Í viðtali við Stundina vegna málsins segist hún þó ekki vera hlynnt því að banna hluti. „Ég er almennt ekki fylgjandi boðum og bönnum, en ég tel ástæðu til að bregðast við hættunni,“ segir hún.
Í raun var eitt helsta stef Hildar í aðdraganda kosninga, og stuttu eftir þær, að Reykjavík ætti að vera frjálslynd borg þar sem íbúar hefðu val. Degi fyrir kosningar, þann 25. maí, skrifaði hún meðal annars í pistli í Fréttablaðinu: „Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er skýr valkostur fyrir þá sem vilja breytingar. Skýr valkostur fyrir þá sem vilja höfuðborg í forystu – samkeppnishæfa borg á innlenda sem alþjóðlega vísu. Leiðandi borg um grænar og vistvænar lausnir. Reykjavík í samkeppni um fólk og atgervi. Höfuðborg sem setur fólk og fjölskyldur í forgang. Borg sem tryggir frelsi og val. Umhverfi þar sem fólki líður vel. Reykjavík sem vinnur fyrir þig.“
Í júní skrifaði hún síðan í pistli í Fréttablaðinu: „Hvort heldur sem er – í stjórnarandstöðu eða meirihluta – stendur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf fyrir frelsi og val. Einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi. Við viljum banna minna og leyfa meira.“
Þess má geta að Karen E. Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, hefur áður lagt fram svipaða hugmynd og Hildur, en þá var niðurstaða lögfræðideildar Kópavogsbæjar að bærinn mætti ekki upplýsa foreldra um þau börn á leikskólum sem ekki höfðu verið bólusett, með vísan í persónuverndarlög og þagnarskyldu á heilbrigðisstarfsfólk.