Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

„Við viljum deila gleðinni og glimmerinu með sem flestum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Seinni undankeppni í Söngvakeppninni fer fram í Háskólabíói laugardagskvöldið 17. febrúar. Í gær fengum við að kynnast þeim flytjendum sem keppa um sæti í úrslitunum 3. mars í fyrri undankeppninni en nú er komið að því að spyrja flytjendur í seinni undankeppninni spjörunum úr.

Lífið og tónlistin stoppar ekki í Eurovision

Söngvarinn Aron Hannes syngur lagið Golddigger og stígur fyrstur á svið í Háskólabíói þann 17. febrúar næstkomandi. Hann keppti líka í fyrra og komst alla leið í úrslitakeppnina. Hann segist mjög spenntur yfir því að fá að upplifa ævintýrið í kringum Söngvakeppnina aftur.

Af hverju Eurovision?

Frábær vettvangur til að koma sér á framfæri sem tónlistarmaður.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Lagið hreyf mig við fyrstu hlustun og gaf mér tækifæri til að hallast meira að nútíma funki sem að mig hefur langað að gera í langan tíma.

- Auglýsing -

Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Að sjálfsögðu mjög spenntur að fá að upplifa ævintýrið í kringum Söngvakeppnina aftur.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

- Auglýsing -

Ætli það sé ekki Tell Me sem að Einar Ágúst og Telma tóku árið 2000. Frábært lag.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

In my dreams, WigWam. Geggjað lag sem hefur fylgt mér alla tíð síðan það var í keppninni árið 2005.

Aron Hannes tók líka þátt í fyrra.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?

Ef að fólki líkar vel við lagið og atriðið þá má það endilega henda atkvæði á strákinn.

Hvernig áttu eftir að bregðast við ef þú vinnur?

Eflaust í skýjunum með það að fá að fara fyrir Íslands hönd í Eurovision.

En ef þú tapar?

Áfram gakk! Lífið og tónlistinni stoppar ekki þar.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Ríkur af reynslu og svo veit maður aldrei hversu stór tækifæri Eurovision býður uppá fyrir mann.

Númer 1,2 og 3 er að njóta augnabliksins

Gríngúbban Áttan, með Sonju Valdín og Egil Ploder í broddi fylkingar, keppir í Söngvakeppninni með lagið Hér með þér, eða Here For You. Þau Sonja og Egill segja að lagið sé ekki típískt Áttulag og telja að flutningurinn í beinni útsendingu muni koma á óvart.

Af hverju Eurovision?

Af því að við höfum alltaf haldið mikið upp á keppnina og horft á hana frá því við vorum krakkar. Svo finnst okkur gaman að taka að okkur ný og krefjandi verkefni og Söngvakeppnin passar vel inn í það.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Við vildum gera eitthvað öðruvísi. Eitthvað sem Áttan hafði ekki gert áður og fórum úr þessu típíska Áttulagi yfir í eitthvað allt annað. Lagið fjallar um fyrstu skrefin í ástinni og við vonum að fólk finni þá tilfinningu þegar það hlustar.

Hvernig var tilfinningin þegar þið komust að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Það var gjörsamlega frábært tilfinning! Alltaf gaman að ná markmiðum sínum.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Egill: Fyrsta lagið sem ég man eftir er Tell Me! með Einari Ágústi og Telmu. Það var svo skemmtilega grillað atriði. Svo að sjálfsögðu frábært lag!

Sonja: Sylvía Nótt – Congratulations. Af því að ég var Sylvíu Nótt fan #1.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Egill: Uppáhalds Eurovision lagið mitt kemur frá Belgíu. Tók þátt árið 2010 með lagið Me and my guitar. Hlusta reglulega á það ennþá í dag. Þetta er svona skemmtilega mjúkt lag. Er mikið fyrir það! Svo gleymi ég reyndar oft að nefna lagið You með Robin Stjernberg. Tók þátt fyrir Svíþjóð árið eftir Euphoria. Fékk þar af leiðandi ekki verðskuldaða athygli! Mikið spilað í vinahópnum mínum!

Sonja: Euphoria af því að það var svo öðruvísi og ég hlusta ennþá á það í dag.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Það eru þrotlausar æfingar fram að keppni og leggjum við mikið upp úr flutningnum og erum nokkuð viss um að við komum áhorfendum á óvart þar.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Það er einhvern veginn ómögulegt að gera sér grein fyrir því. Við höfum eiginlega enga hugmynd. Það væri nátturulega rosalegt! En númer 1,2 og 3 er að njóta augnabliksins.

En ef þið tapið?

Það er mikið af frábærum atriðum í keppninni. Við munum samgleðjast þeim sem fer út og keppir í Eurovision fyrir Íslands hönd. Svo höldum við áfram okkar striki og nýtum okkur meðbyrinn sem Söngvakeppnin vonandi gefur okkur.

Er líf eftir Eurovision?

Já við skulum rétt vona það!

Grenjar í hálftíma ef hann tapar

Söngvarinn Dagur Sigurðarson stígur sín fyrstu skref í Söngvakeppninni með lagið Í stormi, eða Saviours. Höfundur lagsins er Júlí Heiðar Halldórsson en hann samdi íslenska textann ásamt Þórunni Ernu Clausen og enska textann með Guðmundi Snorra Sigurðarsyni. Dagur segir lagið eins og samið fyrir sig.

Af hverju Eurovision?

Það hefur alltaf verið smá draumur hjá mér að fá prófa að syngja í Söngvakeppninni og lagið hentaði mér fullkomlega.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir þér?

Lagið er eins og það sé samið ofan í mig, fullkomin öskur powerballaða með nóg af dramatík.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Fyrsta lagið sem ég man eftir er Minn hinsti dans sem Páll Óskar flutti og er þetta í rauninni fyrsta minningin mín um Eurovision.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Ég ætla að segja að uppáhalds Eurovision lagið mitt sé In my dreams með hljómsveitinni Wig Wam, alvöru glys geðveiki

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?

Fólk á að kjósa það lag sem því finnst flottast og taka inn í dæmið öryggi í flutningi.

Dagur er spenntur fyrir að taka loksins þátt í Söngvakeppninni.

Hvernig áttu eftir að bregðast við ef þú vinnur?

Ég á örugglega eftir að sturlast úr ánægju

En ef þú tapar?

Grenja í svona hálftíma og held svo áfram með lífið.

Gleyma sér í gleðinni og lifa ekki í eftirsjá

Stefanía Svavarsdóttir, Agnes Marinósdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir flytja lagið Svaka stuð, eða Heart Attack. Þær segja áhorfendur mega búast við óvæntum uppákomum í sínum flutningi og segja engan tapa í Eurovision.

Af hverju Eurovision?

Því í Eurovision er bara gleði, glimmer og svaka stuð – og hver vill ekki vera með í því?

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Agnes er skúffuskáld sem er búin að bíða eftir spotlighti fyrir þetta lag. Þýðingin er að þora og gera, gleyma sér í gleðinni og lifa ekki í eftirsjá.

Hvert er fyrsta lagið sem þið munið eftir í Eurovision?

Stefanía: All out of Luck. Ég var 7 ára og horfði á keppnina með öðru auganu á meðan fullorðna fólkið fylgdist með og man hvað mér fannst Selma stórkostleg.

Agnes: Páll Óskar – Minn hinsti dans. Ég man hvað mér fannst hann töff að hafa brotið niður múra og ögrað.

Regína: Páll Óskar. Þetta var eiginlega í fyrsta skiptið sem ég sá svona risastóra söngvakeppni og ég var algjör sökker fyrir söngvakeppnum. Ég man að ég hugsaði að ég ætlaði að vera í þessari söngvakeppni þegar ég yrði stór en kannski aðeins öðruvísi fötum, var pínu sjokkeruð en fannst hann samt eitthvað vandræðalega töff.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Euphoria er besta Eurovision-lag fyrr og síðar, við erum allar sammála um það.

Má búast við að það komi eitthvað á óvart í flutningi ykkar í beinni útsendingu?

Ó já, heldur betur. Verið viðbúin.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Útaf því að við erum með svaka stuðlag! Við viljum deila gleðinni og glimmerinu með sem flestum og hver vill ekki taka þátt í því partýi?

Þrusu þríeyki hér á ferð.

Hvernig eigið þið eftir að bregðast við ef þið vinnið?

Stefanía á eftir að fara að grenja, Agnes mun hugga Stefaníu og Regína fær taugaáfall = we got this.

En ef þið tapið?

Það tapar enginn í Eurovision.

Er líf eftir Eurovision?

Við erum spenntar að komast að því. Eflaust aðeins rólegra líf en vonandi jafn mikið glimmer.

Gott silfur var gulli betra

Knattspyrnukappinn og tónlistarmaðurinn Guðmundur Þórarinsson flytur lagið Liti, eða Colours, sem hann samdi með félaga sínum, Fannari Frey Magnússyni, en þeir eiga annað lag í keppninni; Brosa sem flutt er af Þóri og Gyðu. Guðmundur verður alveg brjálaður ef hann tapar en líka ríkur af góðum og skemmtilegum upplifunum.

Af hverju Eurovision?

Fannar sem semur lögin með mér sendi þau inn til að koma okkar tónlist á framfæri, það var engin djúp pæling á bak við það, meira að við vildum koma okkur áfram í tónlistinni.

Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að lagið væri komið í undanúrslit?

Spennandi hugsaði ég. Ég bý erlendis svo að ég vissi að þetta yrði krefjandi en þetta hefur gengið mjög vel hingað til.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Sennilega Selma Björns með All out of luck. Þetta er svo minnisstætt því fjölskyldan var orðin mjög gíruð heima að við værum að fara að vinna en gott silfur var gulli betra í það skiptið.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Í síðasta skipti með Friðrik Dór. Flott lag sem passar alltaf sama hver stemningin er og Stattu upp með Bláum Ópal, ef maður setur það á í partýi þá verður kvöldið gott.

Guðmundur vonar að Eurovision sé bara byrjunin á ferlinum.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa ykkur?

Það verður hver einn að fá að ákveða það með sjálfum sér, ég reyni að syngja vel og hafa atriðið flott og þá vonandi finnst fólki lagið flott.

Hvernig átt þú eftir að bregðast við ef þú vinnur?

Ég hreinlega veit það ekki, ég hugsa ekki svo langt fram í tímann lengur, ég hef sem betur fer loksins lært að reyna að gera mitt besta í augnablikinu og ekki pæla of mikið í framtíðinni.

En ef þú tapar?

Þá verð ég reyndar alveg brjálaður.

Verður einhver ríkur á að taka þátt í Eurovision?

Ríkur af góðum og skemmtilegum upplifunum.

Er líf eftir Eurovision?

Já, pælingin mín var að tónlistarferillinn myndi hefjast með Eurovision. Ég á mörg lög og finnst gaman að gefa af mér, vonandi verður þetta bara byrjunin.

Fallegur boðskapur sem höfðar til allra

Söngkonan Rakel Pálsdóttir snýr aftur í Söngvakeppnina, en hún flutti lagið Til mín ásamt Arnari Jónssyni í fyrra. Í ár syngur hún ballöðuna Óskin mín, eða My Wish, sem samið er af Hallgrími Bergssyni. Hún segist í fyrstu ekki hafa getað sungið lagið því hún fór alltaf að gráta, svo sterkt tengir hún við það.

Hvaða þýðingu hefur lagið fyrir ykkur?

Lagið hefur sterka þýðingu fyrir mig. Ég hef aldrei tengt eins vel við lag eins og þetta. Ég varð móðir árið 2015 og þá upplifir maður nýjar tilfinningar. Þetta lag var samið um tvo afastráka sem Hallgrímur eignaðist og er þetta um það að móðir syngi til barns síns, óski þess að það elti drauma sína og treysti á sína eigin dómgreind. Ofsalega fallegur boðskapur. Í fyrstu bara gat ég ekki sungið lagið, fór alltaf að gráta. Svo sterkt tengi ég við það.

Hvernig var tilfinningin þegar þú komst að því að þú værir að fara að syngja lag í Söngvakeppninni?

Tilfinningin að fá símtalið var yndisleg! Ég var búin að hugsa með mér hversu leiðinlegt það væri að vera ekki með í keppninni í ár. En svo fæ ég símtal frá Hallgrími og hoppa af kæti. Ég hlusta svo á lagið og verð enn glaðari. Þetta lag hentar mér svo vel.

Rakel keppti líka í fyrra og gekk vel.

Hvert er fyrsta lagið sem þú manst eftir í Eurovision?

Fyrsta lagið sem ég man eftir er Another summernight sem var framlag Möltu árið 2001. Ég var að byrja að horfa á Eurovision á þessum tíma og þetta lag situr enn fast í minninu.

En uppáhalds Eurovision-lagið og af hverju?

Þau eru mörg en þessa stundina er það lagið Undo sem Sanna Nielsen flutti fyrir Svíþjóð árið 2014 og hafnaði í 3. sæti. Annars eru lögin Je nai que mon âme, Frakkland 2001 og lag Serbíu árið 2007 – Molitva.

Af hverju ætti íslenska þjóðin að kjósa þig?

Lagið er einlægt og fallegt og hefur fallegan boðskap. Við Íslendingar þurfum að senda rólegt lag í þetta skiptið í Eurovision. Það er svo mikið stress í þjóðfélaginu. Ég held að það sé góð leið til þess að ná ró innra með okkur og anda léttar. Svo er þessi boðskapur svo fallegur og höfðar til allra.

Hvernig átt þú eftir að bregðast við ef þú vinnur?

Hoppa af kæti og fá svo stresskast.

En ef þú tapar?

Hugsa að maður á aldrei að svekkja sig yfir einhverju, heldur halda áfram, það kemur annað tækifæri.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -