Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn er fluttur á hótel, þar sem eiginkona hans og dóttir þeirra eru nú í sóttkví.
„Ég bý við það núna að konan mín og dóttir eru í sóttkví á mínu heimili. Ég er fluttur á hótel þannig að ég er ekki að hitta þær,“ sagði Víðir í umræðuþætti um COVID-19 á RÚV fyrr í kvöld.
„Ég er ekki hræddur um sem slíkt en auðvitað hefur maður áhyggjur af þeim sem maður þekkir og öllu fólkinu sem er í þessum áhættuhópum,“ sagði Víðir aðspurður um hvort hann óttaðist að smitast af veirunni.
Víðir benti einnig á að það sama gilti um hann og aðra hvað varðaði smitvarnir vegna COVID-19 kórónaveirunnar. „Við erum öll bara í sama liðinu, það eru allir saman í þessu.“