Einn viðmælanda sjónarpsþáttanna Paradísarheimt hefur höfðað mál gegn RÚV og Jóni Ársæli Þórðarsyni, sjónvarpsmanni og þáttastjórnanda. Lögmaður konunnar, Ólafur Valur Guðjónsson, staðfesti í viðtali við Fréttablaðið að málið tengist þættinum.
Í umræddum þætti Paradísarheimtar ræddi Jón Ársæll við konuna sem þá var að afplána dóm á Sogni. Í viðtalinu gerði hún upp erfið uppvaxtarár og baráttu sína við fíkn. Aðrir viðmælendur, sem birtust í þáttunum í misjöfnu ástandi, hafa kvartað opinberlega yfir þeim. Lögmaðurinn konunnar vildi ekki segja efnislega frá kröfum hennar. Forsvarsmenn RÚV hafa ekki tjáð sig um málið.
Paradísarheimt er þáttaröð um fólk sem hefur synt á móti straumnum og gæti talist öðruvísi en flest annað fólk, samkvæmt kynningarefni RÚV. Þáttaröðin vakti mikla athygli þegar á sýningum stóð. Ekki síst viðtalið við þjóðernissinnann Sigríði Bryndísi Baldvinsdóttur sem var ein viðmælanda Paradísarheimt. Sigríður sagðist ekki kippa sér upp við það að vera kölluð nasisti. „Ef maður þarf að vera nasisti af því maður er þjóðernissinni, þá bara erum við það,” sagði Sigríður í viðtali við RÚV. „Það snertir okkur ekki að vera kölluð nasistar eða rasistar. Við erum þjóðernissinnar og vitum það. Hvað aðrir segja er þeirra vandamál.“
Upphaflega átti þáttur Sigríðar að vera sýndur 27. janúar síðast liðinn. Honum var í tvígang frestað og fór að lokum í loftið 10. febrúar. Fyrst var sýningum frestað vegna landsleiks Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta. Í seinna skiptið lenti sýningardagur fyrir tilviljun á alþjóðlegum minningardegi um helförina.
Mál konunnar gegn Jóni Ársæli og RÚV verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.