Viðskiptavinum Klausturs hefur fjölgað mikið síðan barinn rataði í fjölmiðla í tengslum við leyniupptökumálið svokallaða.
Lísa Óskarsdóttir, rekstrarstjóri vínbarsins Klausturs, segir leyniupptökumálið eða klausturgate-málið, sem fjallað hefur verið mikið um í fjölmiðlum undanfarið, hafi svo sannarlega orðið til þess að viðskiptavinum Klausturs hefur fjölgað til muna. „Þetta mál hefur vakið mikla athygli á barnum og við fundum fyrir aukinni aðsókn síðustu helgi. Það var alveg klikkað að gera,“ segir hún.
„Hingað til höfum við verið svolítið falin. Við höfum ekki mikið verið að auglýsa okkur, þetta hefur alltaf verið rólegur bar og fólk hefur getað komið hingað og spjallað án þess að þurfa að öskra yfir borðið.“ Þess má geta að Klaustur bar opnaði árið 2014. „En við erum auðvitað hæstánægð með að fólk viti af okkur núna.“
Hingað til höfum við verið svolítið falin.
Lísa segir marga viðskiptavini vera forvitna um hvar þingmennirnir sem komu að málinu sátu umrætt kvöld. „Fólk sem mætir er forvitið og það er hiklaust gert grín. Fólk reynir að hafa húmor fyrir þessu.“
Starfsmenn Klausturs hafa einnig reynt að slá á létta strengi eftir að upptökur af þingmönnunum rötuðu í fjölmiðla og nýtt sér samfélagsmiðla til að gera grín af málinu. „Það er ekkert annað hægt að gera.“
Mynd / Facebook Klausturs
Sjá einnig: Virðum einkalíf þingmanna en almannahagsmunir vega þyngra