Komið er að helstu málum hjá lögreglunni.
Tilkynnt var um innbrot á veitingastað í hverfi 101. Ýmsir munir teknir og málið er í rannsókn.
Einnig var tilkynnt um rúðubrot í verslun í miðborginni; einn aðili grunaður og hann fannst nálægt vettvangi. Það var rætt við aðilann og hann var síðan frjáls sinna ferða að því loknu. Málið í rannsókn.
Tilkynnt var um aðila í annarlegu ástandi sem var óvelkominn í húsnæði og óskað var eftir aðstoð lögreglu til þess að fjarlægja hann. Þegar lögregla bað aðilann að yfirgefa húsnæðið varð hann viðskotaillur og neitaði að hlýða; aðilinn stóð fastur á sínu og fór svo að hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Tilkynnt var um reiðhjólaslys; tvö reiðhjól skullu saman; annar hjólreiðamaðurinn fann til eymsla og var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.
Skráningarmerki voru fjarlægð af sex ökutækjum vegna vanrækslu eiganda á að færa þau til aðalskoðunar.
Tilkynnt var um innbrot í bifreið sem var lagt í bílastæðahúsi. Málið er í rannsókn.