Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Viðtalið við Gísla heild sinni: „Ég vil aldrei verða eins og móðir mín!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2009 sagði Gísli Þór Þórarinsson, Íslendingurinn sem skotinn var til bana í þorpinu Mehamn í Noregi, sögu sína í ítarlegu viðtali við Vikuna. Nýverið var lítið brot úr viðtalinu birt en vegna fjölda fyrirspurna birtum við nú viðtalið í heild sinni.

Viðtalið tók Hrund Þórsdóttir. Það má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Gísli Þór Þórarinsson er hugrakkur ungur maður sem hefur ákveðið að segja sögu sína í von um að það verði einhverjum til hjálpar. Um leið stígur hann stórt skref í áttina að því að koma eigin lífi á réttan kjöl. Gísli ólst upp með áfengissjúkri móður og í einlægu viðtali við blaðamann Vikunnar dró hann ekkert undan.

Gísli prýddi forsíðu Vikunnar í janúar árið 2009.

„Ég sótti í ást móður minnar þrátt fyrir allt. Þegar ég var fimmtán ára kom hún eitt sinn heim úr drykkjutúr og ég gaf henni að drekka, lagaði til á heimilinu og lagðist svo upp í hjá henni, hélt utan um hana og sofnaði. Daginn eftir kom vinkona hennar í heimsókn og þá fór mamma að gera grín að því að ég hefði legið hjá henni, henni fannst ég of gamall til þess og hló að mér,“ segir Gísli. „Ég vildi bara vera hjá henni og sé ekkert athugavert við það! Ég var bitur en hataði hana aldrei heldur beið þess bara að hún léti áfengið vera.“

Foreldrar Gísla, sem er þrítugur í dag, skildu snemma. „Ég fór til pabba kannski tvær helgar á ári en hann var ekkert til staðar. Það var óeining innan fjölskyldunnar, sífelldar illdeilur og í dag gætum við aldrei verið öll saman í einu herbergi. Mamma var aldrei sáttasemjari heldur jók á eitrið. Á einhverjum tímapunkti gafst hún líka upp og ákvað að láta allt fara til fjandans, hætti að borga reikninga o.s.frv. Þetta bitnaði á okkur systkinunum og í kjölfarið mynduðust sár sem aldrei munu gróa. Sjálfur var ég hlutlausastur og þótti vænt um öll systkini mín. Mamma talar enn niðrandi um okkur og dvelur við gömul deilumál, en ég tek ekki þátt í slíku. Hún er auðvitað veik á geði og í mörg ár hafa heimsóknir á geðdeild verið tíðar,“ segir Gísli, sem bjó einn með móður sinni frá ellefu ára aldri. Áður höfðu sum systkina hans fimm, sammæðra, búið með þeim.

„Við vorum bara tvö á tímabili, ég og mamma, og svo hersing af einhverjum mönnum. Það var mikið um fólk á heimilinu og drykkjufélagar hennar sóttu þangað, ekki bara um helgar. Það var aldrei tekið tillit til þess að ég þyrfti að mæta í skóla daginn eftir. Ég var sífellt að sofna í skólanum en ástæðan var auðvitað að ég fékk engan svefn vegna drykkjuláta. Ég var líka oftast svangur því forgangsröðun mömmu var undarleg. Það voru alltaf til peningar fyrir áfengi og sígarettum en sjaldnast mat. Ég vildi ekki missa af íþróttatímum, því þar fékk ég útrás, og matreiðslu, því þar fékk ég að borða. Ef enginn matur var í boði varð ég reiður og var álitinn erfiður, en ég var bara svangur. Ég lærði að bjarga mér og fór að stela peningum frá mömmu til að kaupa mat. Svo kom fyrir að ég stæli mat úr verslunum.

„Ég var álitinn villingur og settur í tossabekk með tveimur öðrum strákum. Í raun vildu kennararnir bara losna við okkur úr tímum með hinum krökkunum.“

Mér gekk illa í skóla og fannst erfitt að sitja kyrr og hlusta. Ég þótti róstusamur svo kennararnir létu mig sitja fremst, sem mér líkaði illa og fékk auðvitað enga hjálp með heimalærdóminn. Ég var álitinn villingur og settur í tossabekk með tveimur öðrum strákum. Í raun vildu kennararnir bara losna við okkur úr tímum með hinum krökkunum. Ofan á allt hef ég lélega heyrn og þurfti að nota heyrnartæki. Mér var hins vegar strítt svo mikið á þeim í grunnskóla að ég hætti að nota þau og hef ekki gert síðan. Ég átti gamla og ljóta skólatösku og eitt sinn þegar mamma gaf mér jogginggalla var hann ekki til í tveimur litum svo hún keypti tvo eins. Ég var því oft í eins fötum og einu sinni spurði stelpa í skólanum hvort ég þrifi aldrei fötin mín. Ég var samt oftast skikkanlega til fara. Þegar ég sé illa girt og drusluleg börn finn ég fyrir fordómum, sennilega af því að ég vil afneita því hvernig ég var sjálfur. Ég fæ samt samviskubit eftir á og finn til mikillar samúðar. Svona börn eru dæmd hart og það felast meira að segja vissir fordómar í að kalla þau „svona börn“. Við erum öll eins í raun en það er bara gefið svo ójafnt, við höfum úr svo misgóðum spilum að spila.“

- Auglýsing -

Móðirin seldi líkama sinn

Gísli segir frá af ótrúlegri einlægni og yfirvegun. „Eitt sinn þegar ég var mjög svangur, líklega tólf ára gamall, sagði mamma mér að koma í hús þar sem hún var í heimsókn því þar gæti ég fengið mat. Við bjuggum í Njarðvík en þetta var í Innri-Njarðvík svo nokkrir kílómetrar voru á milli. Þegar ég kom þangað ætluðu mamma og tveir menn í heitan pott og mér var sagt að koma með. Ég hafði enga sundskýlu en mennirnir sögðu það allt í lagi þar sem þau yrðu hvort sem er ekki í neinu. Annar þeirra ýtti mér á undan sér ofan í og ég lét mig hafa það en þegar ég var kominn fóru mennirnir að káfa á mömmu, sem tók virkan þátt í þessu líka. Fyrst fraus ég en svo stökk ég upp úr pottinum, fór í fötin og rauk út. Ég veit ekki hvað vakti fyrir þeim en var kallaður á staðinn á þeim forsendum að ég fengi að borða. Ég fékk samt auðvitað ekkert, fór bara aftur og mamma minntist aldrei á þetta síðan. Þegar ég hitti mennina aftur langaði mig að drepa þá. Þann sem ýtti mér út í sá ég nýlega í fyrsta skipti í mörg ár. Hann heilsaði mér og þegar ég áttaði mig á hver þetta væri magnaðist upp í mér gífurleg reiði. Hann er víst með alvarlegan sjúkdóm og var mjög veiklulegur svo andúðin snerist upp í vorkunnsemi. Hann var kominn á slæman stað í lífinu og hafði ekkert fallegt að horfa aftur til!“ segir Gísli ákveðið.

Spurður nánar út í samskipti hans við mennina sem umgengust móður hans kveðst hann hafa verið kaldur við þá enda vissi hann að þeir stöldruðu aldrei lengi við. „Eitt sinn kom ég reiður heim eftir átök við eldra hrekkjusvín, skellti hurðum og lét í mér heyra. Þá var maður hjá mömmu sem ég hafði aldrei séð áður og hann sagði mér að hypja mig út ef ég gæti ekki hagað mér eins og maður. Mamma steig aldrei á milli í svona deilum eða tók afstöðu með mér. Ég réðst á manninn og átökum okkar lauk þannig að ég sá hann aldrei aftur. Ég man líka þegar mamma kom eitt sinn heim með tvo menn sem ég hafði ekki hitt áður. Annar þeirra kynnti sig sem útgerðarmann utan af landi og var með þykkt seðlaveski. Þau voru í glasi og þegar þau höfðu borðað sagði mamma að þau þyrftu að fara. Ég bað hana að fara ekki en hún sagðist verða að gera það því við þyrftum peninga fyrir heimilið. Ég áttaði mig strax á hvað hún átti við, hún var að gera eitthvað fyrir þessa menn í skiptum fyrir peninga,“ segir Gísli hreinskilnislega.

- Auglýsing -

Hann segir þetta eina skiptið sem hann veit fyrir víst að móðir hans seldi líkama sinn. „Þegar þau fóru tók ég matarbakkana þeirra úr ruslinu og át úr þeim. Við þurftum peninga en ég varð ekki var við aukið peningaflæði á heimilinu svo ekki eyddi hún þessu í mig. Ef ég hefði átt að velja á milli þess að njóta góðs af peningunum eða að hún sleppti þessu hefði ég auðvitað valið síðari kostinn,“ bætir Gísli við sem hingað til hefur ekki sagt systkinum sínum frá þessu atviki.

Dó … en var lífgaður við

Gísli kveðst snemma hafa fyllst heift. „Ég tók stríðni vegna t.d. heyrnartækjanna inn á mig og það var auðvelt að æsa mig upp. Ég átti marga vini meðal bekkjarfélaganna sem að vissu leyti pössuðu upp á mig en ef eldri strákana langaði að tuskast við einhvern nýttu þeir sér veika bletti á mér. Ég var fljótur að grípa til hnefans en aldrei að ástæðulausu. Reiðin hefur fylgt mér í gegnum árin og stundum yfirgnæfir hún skynsemina. Á unglingsárunum var ég uppstökkur og fékk útrás fyrir reiði mína og sárindi vegna niðrandi athugasemda og aðstæðna með því að berja frá mér og slást. Ef einhver veitist að mér í dag næ ég að staldra við og þarf ekki að sanna mig með hnefunum. Ég veit hvers megnugur ég er og fæ útrás fyrir neikvæðar tilfinningar með líkamsrækt. Ég hafði tilhneigingu til þunglyndis og þar kemur líkamsræktin einnig til góða. Ég sæki mér líka slökun og hugarró í tónlistina mína sem ég sem, spila og syng.“

Gísli reykir ekki en drekkur í hófi. „Að mér stendur mikið drykkjufólk svo auðvitað er ég í áhættuhópi varðandi alkóhólisma. Ég hef hins vegar aldrei misst tökin og alla tíð haft stjórn á minni drykkju. Ég var mjög ungur þegar ég tók meðvitaða ákvörðun um hvernig ég ætlaði mér aldrei að verða. Ég ætlaði ekki að verða eins og móðir mín! Það er mín trú að þeir sem sýkjast af alkóhólisma hafi fullt val um að gera eitthvað í sínum málum.“

„Ég vildi ekki biðja um ölmusu og þegar mamma hvarf í drykkjutúra lét ég aldrei vita af því.“

Gísli sýndi mikla sjálfsbjargarviðleitni. „Mamma leit svo á að ég myndi alltaf bjarga mér, sama hvað gengi á. Ég vissi oft ekkert hvað var í gangi og það var bara treyst á að það yrði í lagi með mig. Eitt sinn kom mamma t.d. heim að kvöldi með ferðatösku og hafði þá skellt sér í dagslanga fyllirísferð með vinnufélögunum til Grænlands án þess að láta mig vita. Kærasta elsta bróður míns bauð líka einu sinni mömmu og systkinum mínum út í sjoppu að borða ís, en ég var skilinn eftir. Það þótti bara eðlilegt. Ég var mjög heppinn að eiga góða vini sem komu úr góðum fjölskyldum. Í gegnum þá upplifði ég hefðbundið fjölskyldulíf og samveran með þeim og sameiginleg áhugamál, íþróttir o.fl., héldu mér gangandi. Ég forðaðist að vera heima og enginn vissi í raun um ástandið þar. Ég skammaðist mín, fannst ég jafnvel ekki samboðinn vinum mínum og reyndi að láta allt líta vel út á yfirborðinu. Ég vildi ekki biðja um ölmusu og þegar mamma hvarf í drykkjutúra lét ég aldrei vita af því. Mér þótti vænt um hana og vildi ekki vera tekinn frá henni,“ segir Gísli og rifjar upp átakanlegt atvik frá því hann var aðeins þriggja eða fjögurra ára gamall. Atvikið ber vott um ótrúlega vanrækslu.

„Eftir fyrsta barnsburð varð mamma háð lyfjum og var oft eins og gangandi apótek. Við bjuggum í Grænási sem var fyrir innan varnarliðsgirðinguna og mamma vann hjá varnarliðinu. Í nammiskápnum heima var því oft til nammi ofan af velli. Eitt sinn ætlaði ég að fá mér en þá voru aðeins pilluglös í skápnum. Óvitinn ég vissi ekki betur og gleypti í mig miklu af lyfjunum. Um það leyti sem ég var að missa meðvitund gekk mamma inn og hringdi á sjúkrabíl. Við keyrðum til Reykjavíkur og þegar við vorum stödd við álverið fannst mér allt í einu eins og ég horfði ekki upp á andlit mömmu og sjúkraflutningamannanna heldur niður á okkur öll í bílnum og á álverið. Ég sagði mömmu frá þessu löngu síðar og það tók mikið á hana því einmitt þarna við álverið datt ég alveg út. Ég dó í raun og lífgunartilraunir báru ekki árangur fyrr en við komum í Hafnarfjörð. Þetta var eins og að upplifa draum en ég man þetta eins og þetta hefði gerst í gær.“

Hingað og ekki lengra!

Gísli lifði af en dauðinn var oftar nálægur því hann þurfti endurtekið að horfa upp á sjálfsvígstilraunir móður sinnar. „Þegar ég kom fyrst að henni vaknaði ég um nótt eftir skrall heima. Mamma lá á gólfinu og hafði skorið sig á púls. Ég hringdi á sjúkrabíl sem sótti hana en ég var skilinn eftir í óvissu. Hún tók margoft einhver lyf og drakk ofan í þau en sagði mér frá því. Ég var dauðhræddur um að missa hana og hringdi oft á sjúkrabíl. Hún sagði mér oft að hún vildi ekki lifa og hvernig hún hyggðist taka eigið líf. Ég varði ófáum stundum með henni grátandi að reyna að telja henni hughvarf,“ segir Gísli.

Hann á augljóslega erfitt með að rifja atburðina upp en segir áfram frá af festu. „Í síðasta skipti sem ég varð vitni að þessu kom ég að henni á eldhúsgólfinu. Hjá henni lágu pilluglös, áfengisflaska og rakvélarblað. Ég varð svo hræddur að adrenalínið fór á fullt, ég tók mömmu upp og bar hana niður af þriðju hæð þar sem við bjuggum. Ég keyrði hana á sjúkrahúsið, bar hana inn og lagði á börur. Móðir vinar míns var að vinna á sjúkrahúsinu sem var mikið áfall því ég hafði náð að fela þetta allt svo lengi. Það var dælt upp úr mömmu og ástandið var svo alvarlegt að það þurfti að fara með hana til Reykjavíkur. Læknirinn trúði vart að ég hefði borið mömmu, það hefði ekki átt að vera hægt en adrenalínið var svo mikið. Hann spurði svo hvort ég ætlaði með henni í bæinn en ég neitaði. Það var stillt og friðsælt veður og ég upplifði frið innra með mér í stað þess að vera sakbitinn gagnvart mömmu eða skammast mín gagnvart móður vinar míns. Mér var létt og ákvað hreinlega: Hingað og ekki lengra! Ef hún vildi fara, þá bara færi hún.“ Gísli, sem þarna var átján ára, var fljótlega beðinn að hitta móður sína á geðdeild.

„Ég ákvað að spyrja hana spurningar sem hafði brunnið á mér lengi; hvort hún vildi raunverulega að ég horfði á hana deyja og hvort líðanin væri virkilega svo slæm að hún vildi ekki lifa með mér. Hún sneri sér upp að vegg og ég tók þögn hennar sem svo að henni væri sama. Svo kallaði hún á mig og sagðist bara vilja deyja. Ég brotnaði saman og velti fyrir mér hvort öll okkar ár saman skiptu engu máli. Mamma gerði upp á milli barna sinna og sagði oft að ég hefði verið sá eini sem átti að fæðast. Áður en ég kom í heiminn eignaðist hún dóttur sem lést nokkrum klukkustundum eftir fæðingu og eftir það var ákveðið að ég yrði til. Þarna óskaði ég þess að hún hefði fengið að lifa en ekki ég og velti fyrir mér hvort hlutirnir hefðu þá orðið eitthvað betri. Mamma býr í dag með manni sem hún giftist fyrir nokkrum árum. Sjálfsvígstilraunir hennar hafa ekki hætt og hún reyndi síðast að taka líf sitt í desember, en ég er dofinn gagnvart því. Með þessari síðustu tilraun þar sem ég kom að henni drap hún að vissu leyti líka niður lífið í mér. Það hefur vissulega oft leitað á mig að taka eigið líf en þá væri ég eins og sú sem ég vil ekki líkjast. Því er það ekki valkostur í mínum huga.“

Byggir upp frá grunni

Æska Gísla hefur eðlilega haft mikil áhrif á líf hans og m.a. sambönd við konur. „Ég hef verið með stelpum sem koma frá sterkum, samrýndum fjölskyldum og ég var alltaf að bera mig saman við þær. Þótt mér væri vel tekið fannst mér ég aldrei tilheyra þeim, heldur upplifði mig sem ekki samboðinn þeim. Mér fannst erfitt að horfa upp á eininguna og biturð yfir að hafa ekki upplifað hana sjálfur gaus upp. Ég átti líka erfitt með samráðið sem fylgir ástarsambandi enda vanur því að sjá um mig sjálfur og taka eigin ákvarðanir. Ég flúði úr samböndunum og þunglyndi fylgdi þessu öllu,“ segir Gísli, sem aldrei hefur rætt við sálfræðing eða aðra sérfræðiaðila til að fá hjálp.

Gísli Þór lýsti erfiðum uppvaxtarárum í viðtali við Vikuna árið 2009.

„Fyrrverandi kærasta sem ég opnaði mig fyrir benti mér á sálfræðing og ég pantaði tíma en guggnaði á síðustu stundu. Á vissum tíma hefði ég alveg viljað hjálp en feluleikurinn kom í veg fyrir það. Mamma veit ekki að ég er búinn að opna á umræðu um þessi mál en ekkert af því sem ég er að segja ætti að koma henni á óvart. Mig langar ekkert að níða hana en alkóhólisminn og allt sem honum fylgir er svo algengt vandamál að það þarf að opna umræðuna. Ég sækist ekki eftir athygli en það þurfa einhverjir að leggja spilin á borðið og kannski fylgja fleiri í kjölfarið. Vonandi getur saga mín hjálpað einhverjum.“

Gísli starfar sem tollafulltrúi hjá DHL á Keflavíkurflugvelli og spilar tónlist á skemmtistaðnum Hápunktinum í Keflavík um helgar. Síðasta sumar missti hann húsnæði sitt en býr nú með fósturföður sínum. „Ég hef látið þetta marka líf mitt töluvert og ákvað síðasta sumar að byggja líf mitt upp frá grunni. Ég fór að lesa mér til um alkóhólisma og afleiðingar hans, sbr. meðvirkni, og í kjölfarið fór ég að stunda líkamsrækt af kappi.“

Gísli hefur náð gríðarlega góðum árangri á stuttum tíma. Hann var orðinn 115 kíló en er nú 96 og er í mjög góðu formi. „Ég er á lausu núna og þarf að vinna meira í sjálfum mér áður en ég get farið aftur í samband. Sá dagur mun þó koma að ég verð tilbúinn að taka ný skref og vonandi finn ég þá einhverja til að deila lífinu með,“ segir Gísli.

Móðir hans hefur aldrei viðurkennt að hún eigi við vandamál að stríða. „Það er erfitt að fyrirgefa manneskju sem veit ekki einu sinni hvað hún gerði sjálf. Hún hringir í mig og vill hitta mig en ég læt núna eigið líf ganga fyrir. Ég get ekki breytt fortíðinni, aðeins lært af henni og er sáttur. Ég lít framtíðina björtum augum þrátt fyrir neikvæða þjóðfélagsumræðu. Mér eru allir vegir færir, rétt eins og öðrum burtséð frá þeim aðstæðum sem ég kem frá.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -