Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Viðtalið við Guðrúnu Harðardóttur rifjað upp

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ósæmileg hegðun og kynferðislegt áreiti Jóns Baldvins Hannibalssonar hefur verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að hópur kvenna stofaði meetoo-hóp um Jón Baldvin á Facebook. Þær opnuðu svo vefsíðu þar sem þær birta sögur sínar, sögurnar spanna sex áratugi. Þar á meðal er saga Guðrúnar Harðardóttur en hennar frásögn var gerð opinber árið 2012 í Nýju Lífi. Jón Baldvin hóf að senda Guðrúnu afar óviðeigandi bréf þegar hún var 10 ára gömul.

Guðrún Harðardóttir, systurdóttir Bryndísar Schram, eiginkonu Jóns Baldsvins, sagði sögu sína í Nýju Lífi í febrúar árið 2012. Þóra Tómasdóttir, þáverandi ritstjóri Nýs Lífs, tók viðtal við hana. Viðtalið má lesa í heild sinni hérna:

Úr Nýju Lífi, febrúar 2012.

Vill að fólk taki afstöðu

Guðrún Harðardóttir segir bréf Jóns Baldvins eiginmanns móðursystur hennar, hafa gert hana hrædda. Fjölskyldan sé splundruð vegna málsins og nú sé kominn tími til að fólk leggi mat á staðreyndir og taki afstöðu í málinu.

Hvers vegna viltu að innihald bréfanna birtist opinberlega?

„Vegna þess að ég er komin með nóg. Reglulega kemur upp hjá mér reiði, sorg eða biturð yfir þessu máli og nú langar mig að koma því frá mér. Þegar ég heyri um Jón Baldvin talað í fréttum eða á netinu, þá líður mér illa. Fjölskyldan mín er splundruð útaf þessu og mér finnst eins og það sé kominn tími til að fólk fái að vita sannleikann og taki afstöðu. Ég vil að fólk lesi bréfin og sjái svart á hvítu hvað í þeim stendur. Sumir þykjast standa með mér en mæta svo í veislur til Jóns Baldvins. Mér finnst vissulega skrítið að koma fram í fjölmiðlum en tel það einu leiðina til að fá fólk til að horfast í augu við staðreyndir.“

En það er langt um liðið síðan þú fékkst síðast bréf frá honum. Hvers vegna viltu koma fram með þetta núna?

- Auglýsing -

„Mig hefur lengi langað til að koma þessu frá mér. Ég treysti mér ekki til að gera það þegar ég var átján ára. Nú held ég að ég sé orðin nógu þroskuð.“ Beðin um að lýsa sinni upplifun á samskiptum þeirra Jóns Baldvins segir Guðrún að hann hafi dekrað hana sem barn og henni hafi liðið eins og hún væri í uppáhaldi hjá honum. „Þegar hann kom til Íslands bauð hann mér í hádegismat á Hótel Sögu og kom fram við mig eins og ég væri prinsessa. Ég var ofboðslega opin krakki og gamalt fólk í hverfinu voru vinir mínir. Það var alltaf mikið af gestum heima og ég var vön því að tala við fullorðið fólk. Til að byrja með þótti mér gaman að pólitíkus héldi svona uppá mig. En auðvitað var skrítið að fullorðinn maður í fjölskyldunni sýndi mér svona mikla athygli.“

Hvað fannst þér um bréfaskriftir hans?

„Fyrst sendi hann bréf heim. Ég man eftir að hafa flissað yfir þeim með systrum mínum. Okkur þótti þau einkennileg. En bréfin fóru að verða skrítin þegar hann bað mig um að segja ekki frá þeim og fór að senda mér bréf í skólann. Einu sinni var hringt inn í skólastofuna og tilkynnt að ég ætti að koma uppá skrifstofu því þar væri bréf til mín frá Ameríku. Ég hugsaði á leiðinni á skrifstofuna að kannski væri verið að bjóða mér í einhvern æðislegan myndlistaskóla. Svo reyndist bréfið vera frá Jóni Baldvin og ég man að mér þóttu það vonbrigði.“

- Auglýsing -

Bréfin urðu grófari

Guðrún segir stíganda í bréfunum og þau fyrstu hafi verið saklausari.

„Í þeim var hann að skrifa um Önnu í Grænuhlíð og hvað væri yndislegt að vera unglingur. Hann hvatti mig líka til að skrifa dagbók. Ég svaraði honum eiginlega aldrei en eitt skiptið sendi ég honum bréf, bara svona til að hafa hann góðan, en það fjallaði bara um hversdagslega hluti í mínu lífi. Eftir það kvartaði hann yfir því að ég væri ekki nógu persónuleg og ég man hvað mér þótti það skrítið. Ég vissi ekki hverju hann vildi að ég tryði honum fyrir.“

Árið 2001 sendi Jón Baldvin tvö bréf til Guðrúnar þar sem hún var skiptinemi í Venesúela. „Það var þegar ég fékk bréfið sem hann skrifar í Tallin sem ég varð hrædd. Í þessu bréfi talar hann um mig og hórur í sömu andrá. Í öðru bréfi lýsir hann kynlífi með konunni sinni, sem kemur mér ekkert við. Ég man hvar ég sat þegar ég las lýsingar á samförum hans við frænku mína og ég hálfpartinn henti frá mér bréfinu. Ég varð brjálæðislega hrædd og áttaði mig á því að þetta væri alls ekki í lagi. Eftir að hafa fengið þessi bréf sagði ég í fyrsta sinn einhverjum frá því að þetta væri vandamál. Fólkið í Venesúela var fyrst til að fá að vita það.“

Skömmu áður stóð til að Jón Baldvin kæmi í sendiráðsheimsókn til Venesúela. „Hann hringdi í mig og spurði hvort ég vildi ekki hitta hann. Sem betur fer laug ég því að honum að skiptinemar mættu ekki fá heimsóknir og hann trúði því.“

Niðurfelling málsins var sjokk

Guðrún segir að eftir heimkomuna frá Venesúela hafi fjölskylda hennar fengið að heyra af ásökunum á meintum brotum Jóns Baldvins. Guðrún segir að Bryndísi og börnum þeirra Jóns Baldvins hafi staðið til boða að lesa bréfin en hún er ekki viss um að þau hafi öll gert það. Bréfin bárust að minnsta kosti til Bryndísar og yngri dætra hennar tveggja. „Dætur Jóns Baldvins hömruðu á því við mig að hann væri saklaus þar til sekt hans væri sönnuð. Aldís, elsta dóttirin hefur reyndar staðið með mér eins og klettur.“ Hvernig leið þér með að kæra hann? „Í fyrstu var það mikill léttir að það væri í höndum annarra að dæma um hvort hann væri sekur eða saklaus. Tilhugsunin var góð um að nú væri málið í höndum lögreglunnar og hún gæti séð hvernig málið væri.“

Hver voru þín viðbrögð við frávísun málsins?

„Ég var hissa og mér var brugðið. Lögfræðingurinn minn sagði mér að þetta væri svart á hvítu og neglt mál. Niðurfelling málsins var algjört sjokk. Mér fannst eins og það væri verið að svíkja mig og ég missti alla trú á íslensku réttarkerfi. Ég var líka sár yfir því að ég fengi það í bakið að hafa farið til útlanda sem skiptinemi. Að ég hafi einmitt verið stödd í útlöndum þegar bréfið barst og mér fannst sorglegt að það hafi skipt sköpum í málsmeðferðinni. Ég hélt að það væri jákvætt að fara til útlanda í skiptinám og í eina skiptið sem ég hef séð eftir því að hafa farið, var þegar þessi niðurstaða kom. Mér þykir þetta fáranlegt. Niðurstaða ríkissaksóknara, að fella málið niður, vegur jafn þungt og veldur mér jafn mikilli reiði og málið sjálft.“

Sagði Bryndísi alla söguna

Guðrún segir að eftir að móðir hennar lést árið 1993 hafi Bryndís móðursystir hennar verið henni einskonar amma. Hefur þú rætt málið við hana?

„Já. Ég hitti hana á 20 ára afmæli mínu þar sem við sátum á Kaffi Nauthóli í nokkra klukkutíma og ræddum um hversdagslega hluti. Eftir kaffihúsaferðina keyrði ég hana að hótelinu sem hún bjó á og sagði henni að ég vildi ræða við hana um Jón Baldvin. Hún spurði hvort það væri nauðsynlegt. Ég játti því og sagði henni alla söguna frá upphafi til enda. Við sátum í heillanga stund báðar hágrátandi í bílnum fyrir utan hótelið. Hún sagði mér að henni þætti skelfilegt að heyra þetta. Áður en hún fór inn á hótelið til Jóns Baldvins, spurði hún að lokum hvort við tvær gætum ekki verið vinkonur. Ég sagði að ef hún færi inn til hans og léti eins og ekkert hefði í skorist, væri það ekki séns. Hún fór hágrátandi út úr bílnum.“

Guðrún hefur búið mest megnis í útlöndum frá því hún kærði Jón Baldvin. Aðspurð um hvaða áhrif málið hafi haft á líf hennar, brestur hún í grát. Hún nefnir það sem dæmi að vegna málsins þyki henni óþægilegt að búa á Íslandi.

„Mig langar ekki til að rekast á þetta fólk og þau eru mjög áberandi á Íslandi. Mér finnst ég vera öruggari í útlöndum. Þau eru stöðugt að opinbera sitt líf í fjölmiðlum og mér finnst það tilgerðarlegt.“ Auk þess segir hún andleg áhrif málsins vera margþætt. „Þegar ég var lítil og fékk svona mikla athygli frá honum, þá hélt ég það væri eitthvað við mig sem léti fullorðna karlmenn verða skotna í mér. Að ég þyrfti alltaf að passa mig að vera ekki of skemmtileg í kringum karla. Ég hef líka átt erfitt með að treysta eftir þessa lífsreynslu. Það er erfitt að benda á hvað það er, en ég er að mörgu leyti lituð af þessu.“

Sjá einnig: „Hann snerti mig afar ákveðið, glotti og hló“
Sjá einnig: Sterkari viðbrögð við ásökunum – í krafti fjöldans

Mynd / Síða úr Nýju Lífi, 2. tbl. 2012.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -