Jarðskjálftahrinan sem hafin er í nágrenni við Keili á Reykjarnesinu gæti verið undanfari eldgoss. Almannavarnir varar fólk við að vera á ferli nálægt fjallinu.
„Breyting á hegðun gossins samfara aukinni skjálftavirkni við Keili gæti þýtt að kvika leiti annað, en upptök skjálftahrinunnar við Keili er á svæði sem tengist kvikuganginum sem myndaðist í vor. Þannig að við fylgjumst áfram vel með þróun mála og vísindamenn og viðbragðsaðilar eru undir það búin ef kvika nær til yfirborðs við Keili,“ segir Sara Barsotti, fagstjóri eldfjallavár á Veðurstofu Íslands á vefsíðu Almannavarna Íslands.
Segir ennfremur á síðunni að ef kæmi til eldgoss við Keili yrði það af svipuðum toga og það sem er við Fagradalsfjall. Svæðið, sem sé utan alfaraleiðar, sé vel vaktað. Keilir og nágrenni fjallsins er vinsælt útivistasvæði. „Á þessu stigi er fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni í nágrenni vil Keili,“ stendur á síðu Almannavarna.
Hraunflæðilíkan sem sýnir mögulegt hraunflæði ef til eldgoss kæmi suður af Keili. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri) Í líkaninu er gert ráð fyrir gosi á um 1.5km langri sprungu sem liggur N-S og er á svæðinu þar sem skjálftahrinan á upptök. Til að skoða möguleg áhrif frá eldgosi á þessum slóðum er gert ráð fyrir 10-falt meira hraunflæði (100m3/s) en mælst hefur að meðaltali í eldgosinu við Fagradalsfjall. Líkanið sýnir hvert hrauntungan myndi ná eftir ákveðinn dagafjöld, frá 1 upp í 14 daga. Líkanið gefur til kynna að miðað við margfalt hraunflæði á við það sem líklegt er, mun það taka hraunflæði frá gosi á þessum slóðum meira en 2 vikur að ógna innviðum. (Mynd/Líkan: Veðurstofa Íslands/Háskóli Íslands/Gro Birkefeldt Möller Pedersen)