Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir nóg komið af auglýsingum frá samstarfsverkefninu Erfðagjafir sem sjást nú í sjónvarpinu. Þar megi sjá Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, ásamt Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta. Sólveig segir Reagan hafa verið siðlausan rasista og ekki við hæfi að upphefja hann nú.
„„Áhugavert“ að þessi auglýsing frá einhverju fyrirbæri sem heitir Erfðagjafir (samstarfsverkefni Almannaheilla, Amnesty International, Barnaheilla, Blindrafélagsins, Hjálparstarfs kirkjunnar, Krabbameinsfélagsins, Rauða krossins, SOS barnaþorpa, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og UNICEF á Íslandi) sé komin aftir í spilun, á nákvæmlega sama tíma og öll sjá rasismann í Ameríku með eins skýrum hætti og hægt er að hugsa sér. Hér er talað um Ronald Reagan, andlegan föður þess Repúblíkanaflokks sem haft hefur Trump sem leiðtoga í fjögur ömurleg ár, andlegan leiðtoga allra þeirra síkópata og sycophanta sem manna valdastöður flokksins, sem einhvern sérstakan vin okkar og hann sýndur ganga glaður með Vigdísi Finnbogadóttur,“ skrifar Sólveig.
Hún segir Reagan hafa verið skeppnu. „Reagan var grimmur kynþáttahatari en hægrið hefur fengið að komast upp með að dýrka hann sem speking og frelsis-foringja. Ég gagnrýndi þessa auglýsingu í aðdraganda heimsóknar félaga Angelu Davis en Reagan hataði hana og ofsótti vegna þess að hún var svartur kommúnisti og geri það aftur núna,“ segir Sólveig.
Hún vitnar svo upptöku af samtali Reagans við annan forseta, Richard Nixon, þar sem sá fyrrnefndi kallaði afríkska erindreka apa. „Ronald Reagan var rasisti. Það er ekkert hægt að komast fram hjá því. Hann gerði út á rasisma og fékk atkvæði rasista. Hann stóð fyrir árásum á fátækt svart fólk og gróf undan réttindum þeirra (hann var líka ógeðslegur hatursmaður samkynhneigðra). Hann kallaði svart fólk apa sem kynnu ekki að ganga í skóm. Hann var ömurlegur narsisisti og vond manneskja,“ segir Sólveig og krefst þess að lokum að samtökin hætti að sýna þessa auglýsingu.
„Ég krefst þess að þessi ömurlega auglýsing verði tekin úr sýningu. Hún er fáránleg viðbót við heimska og andstyggilega sögu hvítrar yfirburðarhyggju. Burt með bullið, hættum að láta eins og það sé sjálfsagt og eðlilegt. Það er löngu komið miklu meira en nóg af því.“